Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 17:18:05 (4217)

2001-01-23 17:18:05# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[17:18]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði að hv. þm. hefur ekkert á bak við þessa skoðun sína annað en bollaleggingar. Það er ekkert á bak við það að verið sé að brjóta stjórnarskrána eða mannréttindi á fólki. Það er nefnilega staðreynd sem hefur ítrekað komið fram og ég hef verið að reyna að benda á og kemur fram í meirihlutaáliti að Sigurður Líndal prófessor, Eiríkur Tómasson prófessor, Skúli Magnússon lektor, Guðrún Gauksdóttir og Oddný Mjöll Arnardóttir sem komu öll á fund heilbr.- og trn. sögðu að ekkert af því sem kæmi fram í þessu frv. bryti stjórnarskrá eða mannréttindi. Það hefur mér fundist mjög brýnt að komi fram vegna þess að það hefur verið einn helsti þátturinn í málflutningi stjórnarandstöðunnar að verið væri að brjóta mannréttindi og stjórnarskrána. Ekkert bendir til þess. Þar að auki eru í almannatryggingalögum í öllum vestrænum löndum svipuð ákvæði um að heimilt sé að tekjutengja tekjutryggingar með þeim hætti sem gert er hér.