Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 17:19:19 (4218)

2001-01-23 17:19:19# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[17:19]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekkert frekar út í deilurnar um tekjutengingu við laun maka. Aðeins varðandi það að hv. þm. hefur nefnt nöfn nokkurra lögspekinga sem hafa tjáð sig um dóminn og mannréttindi. Eins og ég skildi þetta var það þannig að miðað við skilning ríkisstjórnarinnar bryti þetta ekki í bága við stjórnarskrána. Aðrir komu líka á fund nefndarinnar og margir hafa tjáð sig um málið, löglærðir og ýmsir einstaklingar. Það er alveg ljóst að við vorum að setja í stjórnarskrá mannréttindaákvæði og jafnréttisákvæði og við vorum mjög stolt af því þegar við gerðum það. En þann dag sem hæstaréttardómur fellur um að brotið sé í bága við þessi ákvæði vill enginn við mannréttindin kannast eins og við fengum að heyra fyrr í dag.