2001-01-24 00:37:10# 126. lþ. 65.1 fundur 411. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 126. lþ.

[24:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að leggjast gegn þeirri frestunartillögu sem hér var mælt fyrir af hæstv. forsrh. þó auðvitað megi deila um hvort tilefni eða ástæður séu til að gera þetta langt hlé á fundum Alþingis nú þegar komið er langt fram í janúarmánuð og hefðbundinn starfstími Alþingis samkvæmt áður gerðri starfsáætlun er í raun og veru hafin. Nokkur röskun hefur orðið á fundaáætlun eins og við þekkjum og gert hafði verið samkomulag, þá var reyndar reiknað með því að mál sem var til umfjöllunar á undanförnum dögum tæki skemmri tíma en raun ber vitni.

Ég vil hins vegar hafa þann fyrirvara á að ég áskil mér allan rétt til þess að fara fram á það að Alþingi komi saman fyrr til fundar ef aðstæður verða slíkar í þjóðfélagi okkar að tilefni verði til. Sérstaklega er ég að vísa þar, herra forseti, til þeirrar óvissu sem uppi er í efnahagsmálum og gengismálum og gætu vel valdið því ef svo heldur sem horfir að til verulegra tíðinda dragi á þeim vettvangi, jafnvel á allra næstu sólarhringum. Fari svo, þá geti að mínu mati orðið fullt tilefni til þess að Alþingi komi fyrr saman til funda en áformað er og reiknað er með samkvæmt þessari tillögu, þ.e. að fundir hefjist ekki að nýju fyrr en 8. febrúar nk. Þessu vildi ég koma á framfæri, herra forseti, til þess að það lægi fyrir.