Lagabreytingar vegna Genfarsáttmála

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:19:30 (4334)

2001-02-08 12:19:30# 126. lþ. 66.2 fundur 180. mál: #A lagabreytingar vegna Genfarsáttmála# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal játa að ég hrökk dálítið við þegar ég sá þessa tillögu á sínum tíma. Hún hafði farið fram hjá mér á síðasta ári og þó að hún varði ekki beint utanrrn. heldur eins dómsmrn., þá hef ég látið athuga hvort virkilega geti verið rétt að við höfum ekki fullnægt alþjóðasamningum sem við undirrituðum fyrir áratugum síðan. Mun ég nú gera grein fyrir athugun ráðuneytis míns á þessu máli.

Í 146. gr. Genfarsáttmálans um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum er sú skylda lögð á aðildarríki að innleiða lög, ákvæði sem mæla fyrir um viðurlög við ákveðnum alvarlegum brotum. Þessi brot eru síðan talin upp í 147. gr. samningsins. Í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, er mælt fyrir um refsingar við öllum þeim brotum sem Genfarsáttmálinn tekur til og því er í raun engin þörf á viðbótum eða endurskoðun þar á. Hefðbundin túlkun hegningarlaga leiðir til þess að þau brot sem Genfarsáttmálinn telur upp teljast falla þar undir.

Rétt þykir jafnframt að geta þess að á síðasta Alþingi var samþykkt till. til þál. um fullgildingu Rómarsamþykktar um alþjóðlegan sakamáladómstól. Dómstóllinn mun hafa það hlutverk að dæma í málum einstaklinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Þessir glæpir eru skilgreindir í samþykktinni að undanskildu ákvæðinu um glæpi gegn friði og dómstóllinn mun hafa sjálfvirka lögsögu í málum sem undir hann heyra. Á yfirstandandi Alþingi mun hæstv. dómsmrh. leggja fram frv. til laga sem mun gera framkvæmd samþykktarinnar mögulega hér á landi.

Með fullgildingu Rómarsamþykktarinnar og lögunum sem verða væntanlega til umfjöllunar og samþykktar vonandi á yfirstandandi þingi mun staðan í mannréttindamálum á Íslandi verða sterkari en áður og ákvæði Genfarsáttmálans um vernd óbreyttra borgara verða enn betur tryggð. Hér má jafnframt benda á ákvæði VII. kafla stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944, sem og lög nr. 62/1944, um lögfestingu ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu. Með lögfestingu mannréttindasáttmálans er Ísland skuldbundið til að framfylgja þeim ákvæðum sem þar eru. Telja verður að ákvæði sáttmálans sem eru að einhverju leyti sömu ákvæði og eru í Genfarsáttmálanum falli innan mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Við þetta má bæta að Ísland er aðili að fjölmörgum alþjóðlegum mannréttindasamningum og ber skylda til að fylgja þeim og túlka landslög í samræmi við þá. Telja verður að dómstólar hafi framfylgt þessari skyldu og að mannréttindi óbreyttra borgara séu að fullu virt á Íslandi.

Herra forseti. Ég vildi aðeins gera grein fyrir þessari athugun sem lögfræðingar í utanríkisráðuneytinu hafa gert. Ég tel því að við höfum staðið þannig að málum sem betur fer að fullnægjandi sé.