Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:38:13 (4340)

2001-02-08 12:38:13# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:38]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Gera verður skýran greinarmun á þvinguðum sparnaði og frjálsum. Iðgjald til lífeyrissjóða á Íslandi er nánast ígildi skattlagningar. Menn komast ekki hjá því að borga í lífeyrissjóð. Hafi þeir tekjur eiga þeir samkvæmt lögum að greiða iðgjald í lífeyrissjóð. Þetta er þvingaður sparnaður, þvinguð trygging. Þetta er trygging sem keypt er þvinguð af ríkinu til þess að menn séu tryggðir.

Frjáls sparnaður sem menn stunda ef þeir vilja --- menn ráða því hvort þeir kaupa einhverjar neysluvörur eða leggja fyrir --- er allt annars eðlis og sá sparnaður ætti að sjálfsögðu ekki að koma til frádráttar þessum greiðslum. En þvingaður sparnaður, sem ríkið leggur til til þess að menn séu tryggðir ef þeir lenda í áföllum t.d. af völdum slyss og verða öryrkjar, er ekki í eðli sínu frjáls sparnaður heldur er hann allt að því skattlagning sem ríkið er að leggja á til þess að menn séu tryggðir. Ef menn eru oftryggðir, fá of miklar bætur í slíkum tilfellum, kemur það hreinlega fram þannig að iðgjaldið til lífeyrissjóðanna samanlagt og til skaðabótatryggingarinnar, þ.e. bílatryggingarinnar, verður of hátt og það kemur niður á öllum greiðendum iðgjalds og skatta.