Lækkun skatta á fyrirtæki

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:15:00 (4401)

2001-02-12 15:15:00# 126. lþ. 67.1 fundur 277#B lækkun skatta á fyrirtæki# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er ekki miklu nær. Það eru út af fyrir sig ekki neinar sérstakar fréttir að hlutirnir séu almennt í skoðun í fjmrn. Það ráðuneyti sem fer með skattamál hefur málin væntanlega almennt til umfjöllunar á hverjum tíma. Hins vegar var ómögulegt að merkja í svari hæstv. fjmrh. hvort einhver formleg vinna væri í gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar til að undirbyggja það útspil sem hæstv. forsrh. kom með á viðskiptaþinginu. Var það bara ætlað til heimabrúks, sem konfekt í eyru þeirra fyrirtækjaforkólfa sem hæstv. forsrh. ávarpaði á viðskiptaþinginu? Er það þá ábyrgur framgangsmáti að gefa upp boltann um að í farvatninu kunni að vera stórfelldar skattalækkanir á fyrirtæki ef engar innstæður eru fyrir því annað en almennt tal hæstv. fjmrh. um að þessi mál séu út af fyrir sig alltaf til skoðunar? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli? Stendur til að stórlækka skatta á fyrirtæki eða ekki?