Lækkun skatta á fyrirtæki

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:17:30 (4403)

2001-02-12 15:17:30# 126. lþ. 67.1 fundur 277#B lækkun skatta á fyrirtæki# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel ekki að saklaus fyrirspurn mín hafi gefið hæstv. fjmrh. tilefni til að ýfast upp nema ég hafi komið við snöggan blett. Er það mögulega þannig að þessi yfirlýsing hæstv. forsrh. hafi komið eins og köld vatnsgusa framan í hæstv. fjmrh.? Það skyldi nú ekki vera að það hafi verið eitthvað lítið um samráð áður en þessu var spilað út. Ég þykist einmitt muna að hæstv. fjmrh. hafi tiltölulega nýlega, m.a. úr þessum ræðustól, varað við því að menn væru að gera gælur við skattalækkanir vegna þenslunnar og af fleiri ástæðum.

Væntanlega fer honum eins og fjármálaráðherrum fer almennt, að þeim er annt um pyngjuna sína, þeir vilja sitja ofan á kassanum og helst hafa einhverja aura þar á botninum. Þar af leiðandi kemur þetta nokkur sérkennilega út, herra forseti. Síðan verður hver og einn að dæma fyrir sig hvað var á þessum svörum að græða. Ég fékk engan botn í það hvenær formleg vinna sem miðaði að því að lækka skatta á gróða fyrirtækja hefði hafist og að hverju hún miðaðist. Þetta voru almennar hugleiðingar hæstv. fjmrh. sem greinilega er í vanda með málið.