Útboð á kennslu grunnskólabarna

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:14:04 (4436)

2001-02-12 16:14:04# 126. lþ. 67.91 fundur 285#B útboð á kennslu grunnskólabarna# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:14]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Það er athyglisvert að heyra í þessari umræðu eins og oft áður hver áhugi vinstri grænna er á Framsfl. Hann er yfirleitt nefndur þegar vinstri grænir taka hér til máls. Og í framhaldi af orðum síðasta hv. þm. vil ég fagna því og þakka fyrir að Framsfl. skuli ekki vera pinnfastur í íhaldsfari vinstri grænna.

Hér er til umræðu mál sem snertir einkavæðingu grunnskóla í Hafnarfirði. Þegar hæstv. heilbrrh. Ingibjörg Pálmadóttir var að því spurð á hv. Alþingi hvort til stæði að einkavæða sjúkrahús á Íslandi, þá var svar hennar mjög afdráttarlaust. Hún svaraði því neitandi. Og hvers vegna skyldi hún hafa svarað því á þann hátt? Það er ekki einasta vegna þess að það er hennar eigin sannfæring, heldur og að á bak við sig hefur hún stefnu Framsfl. sem er hvað þetta varðar afskaplega skýr. Framsfl. hefur ítrekað ályktað um það að markaðslögmálin gildi ekki um grundvallaratriði í heilbrigðiskerfinu, í menntamálum og varðandi Ríkisútvarpið. Hvað aðra þætti varðar er það stefna flokksins að þegar ytri skilyrði til samkeppni eru til staðar þá sé eðlilegt að ríkið dragi sig út úr þeim rekstri en það gildir ekki um þá þrjá þætti sem ég nefndi. Það er stefna flokksins og hún hefur ekki breyst. Þess vegna höfum við áhyggjur af því sem er að gerast í Hafnarfirði en rétt er að taka það fram að það eru einstaklingar og einstök félög sem taka ákvörðun um það. Það er ekki miðstýring, hvorki héðan né annars staðar. Það er hjá sveitarfélögunum. Við höfum hins vegar verulegar áhyggjur af þessu vegna þess að að mörgu leyti samræmist það ekki grundvallaratriðum Framsfl. eins og ég hef nefnt.

Ég ítreka og hef farið yfir það (Gripið fram í.) og þrátt fyrir frammíköll liggur nokkuð ljóst fyrir til hvaða þátta við teljum að markaðslögmálið eigi ekki að ná. Það hefur komið skýrt fram.