Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 18:47:45 (4484)

2001-02-12 18:47:45# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[18:47]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi eitthvað misskilið mál mitt. Ég var að beina spurningu til hans um hvort þetta snerist um jafnræði milli íþróttagreina vegna þess að hann var búinn að finna út að menn gætu slasast í dansíþróttinni, körfubolta og hestamennsku og einhverjar fleiri greinar taldi hann til. Ég var að spyrja hann hvort þetta snerist fyrst og fremst um jafnræði á milli íþróttagreina að þeim væri öllum gert jafnhátt undir höfði þannig að menn gætu slasað sig á margbreytilegri hátt en nú er, að menn ættu líka að geta slasast í hnefaleikum fyrst menn gætu farið sér að voða á dansgólfinu eða á hestbaki, þetta var spurning sem ég beindi til hans.

En ég vil beina spurningu til hv. þm.: Er honum ekki kunnugt um að í Bandaríkjunum, í Bretlandi og víðar þar sem hnefaleikar eru stundaðir er andóf gegn þessari íþrótt, bæði vegna skaðsemi íþróttarinnar en einnig vegna hins að mönnum finnst ástæða til þess í ofbeldisfullum heimi að reyna að draga úr því sem er líklegt til að stuðla að ofbeldinu? Það er alveg rétt að menn geta stundað karate og hnefaleika, þess vegna í varnarskyni, en að sjálfsögðu eru þetta fyrst og fremst bardagaíþróttir sem menn eru að tala fyrir og hvetja til að verði lögleiddar á Íslandi.