Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 19:15:01 (4490)

2001-02-12 19:15:01# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[19:15]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Reyndar er það svo að höggið sem kemur á höfuðið þegar bolti er skallaður kemur líkast til meira ofan á höfuðið heldur en á hliðina og það getur verið talsverður munur á því hvernig heilinn hreyfist miðað við það, heldur en í upp og niður hreyfingunni. En ég ætla ekki að fara út í smáatriði með það.

Það er eðlilegt að draga atvinnumannabox inn í umræðuna vegna þess að áverkinn á heilann er sama eðlis, það er eðlilegt. Ekki er rétt hjá hv. þm. að hnefaleikar séu ekki hættulegri en aðrar íþróttagreinar og þá innifel ég áhugamannahnefaleika, vegna þess að sýnt hefur verið fram á og menn telja að það sé skýrt svo, a.m.k. breska læknafélagið og bandaríska læknafélagið og fleiri, að þeir séu hættulegri en aðrar íþróttir, ekki síst vegna þess að það er vísvitandi verið að skaða líkama keppinautarins. En aðalatriðið er að það eru áverkar á heilann sem þarna skipta máli og það hefur ekkert með forsjárhyggju eða ekki forsjárhyggju að gera. Við getum bara verið alsæl og verið í fararbroddi í einu máli, þ.e. að vera ekki með ólympískt box.