Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 19:16:22 (4491)

2001-02-12 19:16:22# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[19:16]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Fjeldsted var að því er mér fannst miklum mun mildari í ræðuhöldum sínum nú en þegar við ræddum þetta ágæta frv. hér síðast. Til að taka af allan vafa vil ég spyrja hv. þm. örfárra spurninga til upplýsinga um afstöðu hv. þm. Þó virðist mér enn vera nokkuð óljóst, eins og var hér áður, um þau mörk sem hv. þm. vill setja varðandi það hvenær á að leyfa og banna íþróttir. Ég sakna enn nákvæmari útlistana á því. Mörk sem hugsanlega gætu verið þau að ef höfuðið er í ákveðinni hættu, við gætum fundið okkur einhvern stuðul á það, þá ættum við að sjálfsögðu að banna allar þær íþróttir sem væru yfir þeim mörkum þannig að jafnræði væri á milli íþrótta og samræmi í skoðunum fólks gagnvart því banni sem hér um ræðir.

En það sem mér þótti athyglisverðast í ræðu hv. þm. voru þær athugasemdir sem mér fannst fyrst og fremst snúa að tvennu, þ.e. annars vegar nafngiftinni ólympískir hnefaleikar, þ.e. að ef frv. fjallaði um lögleiðingu áhugamannahnefaleika þá væri viðhorf hv. þm. hugsanlega eitthvað annað til frv. Það væri fróðlegt að fá að heyra nákvæma útlistun á þessu eða hvort um misskilning af minni hálfu hafi verið að ræða. Og hins vegar það sem mér þótti nú einna merkast, ef ég hef skilið rétt, að hv. þm. væri í raun sammála frv. ef ekki væri til staðar heimild til keppni, þ.e. hugsanlega væri þarna hægt að ná einhverri vítækari sátt um frv. ef heimildin til keppni væri tekin út og eingöngu væri heimilt að kenna og sýna áhugamannahnefaleika. Einnig vil ég vekja athygli hv. þm. á því að í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að Ólympíusamband Íslands setji reglur um hnefaleikana, áhugamannahnefaleikana, og því er hægt að skera nánar úr um málið þar ef á þarf að halda.