Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 13:33:39 (4496)

2001-02-13 13:33:39# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), Flm. SvH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[13:33]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Mönnum er sjálfsagt í fersku minni tilurð hinnar svonefndu auðlindanefndar. Þegar nálgaðist síðustu kosningar ruku menn í stjórnarflokkunum upp með nokkrum andfælum og tóku til að smíða þann blekkingavef sem ofinn var allar götur fram yfir þær kosningar og heppnaðist með ágætum. Þar var þrifin upp tillaga Alþb. sáluga um auðlindanefnd og hún sett á laggirnar og menn þekkja erindi hennar.

Hér er um eitt mikilvægasta málefni þjóðarinnar fyrr og síðar að ræða. Þegar þessi skýrslugerð lá fyrir í september og þegar Alþingi hafði komið saman gerði Frjálslyndi flokkurinn, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, fyrirspurn um það til þess sem þessi skýrsla var afhent hvort ætlunin væri að taka hana til umræðu á Alþingi af hans hálfu. Svo var ekki. Þá var gerð fyrirspurn um það til stjórnar þingsins hvort hæstv. sjútvrh. hygðist taka þetta til umræðu og gera Alþingi grein fyrir skýrslunni en því er einnig neitað. Auðvitað vildu þeir ekkert með það hafa að tala við Alþingi um þetta mál. Að sjálfsögðu er ekkert hundrað í hættunni, eins og hæstv. sjútvrh. nefndi það, þó þetta dragist von úr viti úr allri hömlu því á meðan búa sægreifarnir um sig, handhafar gjafakvótans og byggðir landsins brotna saman.

Þessi skýrsla, þessi álitsgerð er þegar hún er rýnd niður í kjölinn, skálkaskjól fyrir hæstv. ríkisstjórn til þess að halda óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfi og skáka sjávarauðlindinni endanlega til hinna örfáu útvöldu. Það verð ég að segja að það er nokkur haldhæðni örlaga að undir þessa skýrslu skulu skrifa þingmenn Vestmannaeyja, sérstakur, og Hríseyjar eins og nú hljóða fréttir frá þessum stöðum um þá ógn sem yfir dynur vegna þess kerfis sem hér er í framkvæmd.

Því hefur verið haldið mjög hátt á lofti að samkomulag og samstaða sé um niðurstöðu þessarar nefndar. Ég vil, með leyfi forseta, rifja upp það sem segir á bls. 43 um afstöðu til þeirra tveggja meginleiða sem nefndin fitjar upp á að færar séu í sambandi við framkvæmd laganna og kerfis sem þá yrði komið á:

,,Tekið skal fram að einstakir nefndarmenn hafa mismunandi skoðanir á því hvora þessara leiða sé æskilegra að fara ... Einnig eru skiptar skoðanir um það hversu hátt veiðigjald eða fyrningarhlutfall skuli vera ...``

Og samkomulagið er ekki meira en svo að þrír nefndarmannanna af níu undirrita þetta með fyrirvara og hafna fyrningarleiðinni, þeirri leið sem er þó eina leiðin sem fær er til þess að auðlindin gangi til frjáls markaðar sem einu sinni var meginatriði í stefnuskrá míns gamla flokks, Sjálfstfl. Þeirri leið er hafnað. Um hana er ekkert samkomulag a.m.k. því að jafnskjótt sem þessi álitsgerð var lögð fyrir hæstv. forsrh. héldu lénsherrarnir í LÍÚ blaðamannafund og tilkynntu um sitt val, enda er ég ekki í nokkrum minnsta vafa um það að löngu fyrr var búið að semja á bak við tjöldin um þessa leið, löngu fyrr.

Um hvað er þá samkomulag og samstaða ef svo telst vera yfirleitt? Það er ekki nema önnur leiðin eftir og það er veiðigjaldsleiðin. Það er að vísu leið formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, kjörleið hans, þessa sem fyrir utan venjulega úthlutun og gjafakvóta fékk svonefndan skipstjórakvóta eins og bráðum mun koma á daginn þegar svarað verður fyrirspurn sem ég hef lagt fram, skipstjórakvóta upp á svona 2,5 milljarða kr. Það er val sægreifanna. Sú leið er þeirra val, að fá að borga afnotagjald, auðlindagjald sem svarar svona eins og þeir kalla kostnaðarhlutdeild, þ.e. sem rekstur hins opinbera vegna nýtingar auðlindarinnar nemur. Þetta er þeirra val og menn skulu sjá til hvort það verður ekki niðurstaðan.

Það fer ýmsum fréttum af átökum innan hinnar svonefndu kvótanefndar sem einu sinni var kölluð ,,sáttanefnd``. Um hvað skyldi vera tekist á þar? Um það fyrst og fremst og síðast að það á að þröngva smábátakerfinu, krókabátakerfinu, inn undir kvótabraskskerfið og það stendur líka í þessari auðlindaálitsgerð að það sé tillaga þeirra að fella þetta í sama kerfi. Það stendur hér og ég mun vitna til þess þó síðar verði. Teljist samkomulag um eitthvað í þessari álitsgerð þá er það um veiðigjaldsleiðina og það er kjörleið þeirra sem ráða ferðinni.

Ég leyfi mér að vitna í skýrsluna á bls. 30. Þar segir án þess að ég vitni orðrétt eða lesi það upp, að nefndin sé þeirrar skoðunar að byggja eigi stjórn fiskveiða áfram í meginatriðum á núverandi grunni. Mér er alveg hulin ráðgáta hvernig fulltrúar Samfylkingarinnar fá sig til þess að skrifa undir þvílíkt. Hér gengur í salinn Jóhann Ársælsson sem ég minnist að hafa séð eftir í rituðu máli að hann nefndi þessa útlistun ,,úldinn kött í sekk sem ekki yrði keyptur``. Misminnir mig að þessu leyti? Ó nei. Og það er eftir að sjá hvort menn ná ekki áttum í þessu máli.

Málinu var skákað, eins og ég sagði áðan, frá kosningunum síðustu og það heppnaðist svo til alveg og formaður vinstri grænna, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var fyrstur til að taka undir það að við þyrftum engar áhyggjur að hafa af þessu máli, það væri komið á rétta leið, væri á réttu róli eins og það var nefnt af því ríkisstjórn hefði lofað bót og betrun sem ekkert var nema yfirskin, fals og ósannindavaðall.

Menn minnast kannski forsendnanna fyrir þessu kerfi, hagkvæmni, hagræðing, verndun fiskstofna fyrst og fremst. Hvernig hefur úr ræst? Allir aðalfiskstofnar við strendur landsins hafa stórlega skroppið saman síðan þetta kerfi komst á. Ætla menn að þræta gegn því? Þeir menn hljóta að hafa búið síðustu árin hinum megin á sjöstjörnunni sem dettur í hug að bera brigður á það, allir. Hagkvæmnin lýsir sér kannski í fréttum af afkomu ÚA á Akureyri í gær, 700 millj. kr. tapi. Þessi aðferð átti að minnka veiðiflotann. Hann hefur stækkað mikið á þessu tímabili. Lýsir hagræðingin og hagkvæmnin sér kannski í því að sjávarútvegurinn stefnir lóðbeint á höfuðið með ofboðslegri skuldasöfnun sem nálgast 200 milljarða kr.? Er þetta hagkvæmin? Hagkvæmni einstakra manna lýsir sér í því að þeir selja þessa auðlind fyrir eigin reikning og stelast burt með peningana skattlaust til útlanda eins og séð var vel fyrir af hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni sem stundar það í hjáverkum að vera formaður efh.- og viðskn. á löggjafarsamkundunni, í hjáverkum við það að vera framkvæmdastjóri illmúruðustu eiginhagsmunaklíku landsins. Þetta er hagkvæmnin og þetta er af uppbyggingu nytjastofnanna að segja.

Og svo er talað um reynslu annarra þjóða. En það má ekki taka reynslu Færeyinga sem dæmi. Þeim var fengin í hendur fiskveiðistjórn af Dönum, sú sama sem við höfum í dag. Af hverju hættu þeir við hana aðallega eftir þrjú ár? Af því að kerfið felur í sér botnlaust brottkast. Og hvað segja menn hér? Menn þræta gegn þessu, að þetta eigi sér ekki stað. Einn þekktasti fiskiskipstjóri landsins, Hrólfur Gunnarsson, telur að þetta nemi 200 þús. tonnum. Jafnstaða þorskafla á Íslandsmiðum var í 22 ár, frá 1950--1972, 438 þús. tonn á ári á 43 þús. ferkílómetra þorskslóð. Nú höfum við 750 þús. ferkílómetra og við höfum ekki náð nema helmingnum af þessum afrakstri, nema það sé fólgið í því að hinum helmingnum sé hent? Það er hent fiski fyrir milljarða. Á því leikur ekki nokkur minnsti vafi. Á öllum fiskiskipahöfnum landsins er það ástundað undir drep eins og kostir gefa að skjóta öllu undan þeim lögum og reglum sem gilda. Til hvers? Til þess að menn bjargi lífi sínu, afkomu og æru. Til þess að verða ekki uppiskroppa eins og Vestfirðingar eru að verða, eins og Hríseyingarnir eru að verða og hvarvetna í kringum landið, að yfirgefa sínar eignir verðlausar. Þetta er afleiðingin. Og þessi dæmalausa nefnd segir að ekkert bendi til þess og ekkert sanni að um brottkast sé að tefla. Hún segir að þessi aðferð ætti ekki sérstaklega að leiða til þess að samþjöppun yrði í greininni. Hvar hafa þeir menn verið sem upp á þetta skrifa?

Þessi tími endist ekki til neins að sjálfsögðu. Enda er það ekki ætlunin að menn fái að ræða þetta í rólegheitum. Enda er svo komið um málfrelsið á hinu háa Alþingi að það þarf sérstaklega að taka það til umræðu þar sem menn eru í ani við að koma frá sér setningum áður en skekin er að þeim skella með ofsalegum geðsveiflum eins og dæmi sanna.