Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 16:04:44 (4524)

2001-02-13 16:04:44# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 639, en um er að ræða frv. til laga sem mun hafa í för með sér breytingar á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta um breyting á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, er lagt fram í þeim tilgangi að setja skýrari og ítarlegri ákvæði í IX. kafla laganna um fiskeldi og hafbeit. Ljóst er að löggjöf um fiskeldi hefur lengi verið ábótavant hér á landi. Núgildandi löggjöf um þennan málaflokk er fábrotin og gefur stjórnvöldum ekki nægjanlegt svigrúm til að hafa afgerandi áhrif á mótun og starfsemi atvinnugreinarinnar. Í löggjöfina vantar ýmis ákvæði sem eðlilegt og nauðsynlegt má telja að þar sé að finna.

Með frumvarpi þessu er leitast við að setja fram skýrari reglur um starfsemi fiskeldis og styrkja og treysta þau ákvæði laganna sem ætlað er að sporna gegn aukinni hættu á fisksjúkdómum, óæskilegri blöndun fiskstofna og öðrum vistfræðilegum vandamálum. Með lögum nr. 50/1998 voru gerðar nokkrar breytingar á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, sem höfðu þetta markmið en náðu eingöngu til hafbeitar. Sömu sjónarmið eiga hins vegar í mörgum tilvikum við um annars konar fiskeldi, einkum sjókvíaeldi þar sem alltaf fylgir því nokkur hætta á að eldisfiskur sleppi úr kvíum.

Hæstv. forseti. Ég mun nú víkja að helstu breytingum sem frv. mun hafa í för með sér á ákvæðum laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Helstu nýmæli í frv. eru þessi:

1. Landbrh. veitir rekstrarleyfi til fiskeldis- og hafbeitar samkvæmt frv., en samkvæmt gildandi lögum veitir veiðimálastjóri rekstrarleyfi. Veiðimálastjóri verður hins vegar umsagnaraðili um veitingu rekstrarleyfa ásamt fleiri aðilum.

2. Settar eru skýrar og afdráttarlausar reglur í frv. um á hvaða grunnsjónarmiðum landbrh. ber að byggja í meðferð umsókna um reksrarleyfi til fiskeldis eða hafbeitar. Samkvæmt því ber landbrh. við ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis að leggja til grundvallar bæði sjúkdómstengd og vistfræðileg sjónarmið sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldis- og hafbeitarstöðva. Þetta kemur ekki skýrlega fram í gildandi lögum.

3. Settar eru skýrari og ítarlegri reglur í frv. um hvaða upplýsingar og gögn skuli fylgja umsókn um rekstrarleyfi m.a. um eignaraðild, fagþekkingu umsækjenda, stærð stöðvar, framleiðslumagn, eldistegundir, eldisaðferðir, matsskyldu framkvæmdar samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, starfsleyfi samkvæmt ákvæðum annarra laga sem varða slíka starfsemi, áætlun um fjármögnum mannvirkja og annars búnaðar, rekstraráætlun leyfa til mannvirkjagerðar o.fl. Jafnframt er gert ráð fyrir að landbrh. geti óskað eftir að aðrar upplýsingar og gögn verði lögð fram.

4. Samkvæmt frv. verður óheimilt að gefa út rekstrarleyfi til fiskeldis eða hafbeitar fyrr en ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar eða úrskurður um mat á umhvefisáhrifum liggur fyrir, sbr. lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt skal rekstrarleyfi vera í samræmi við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum.

5. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að stofnuð verði sérstök nefnd, fiskeldisnefnd, sem landbrh. skipar. Gert er ráð fyrir að fjórir menn eigi sæti í nefndinni. Einn skipaður án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu sjútvrh., einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar og einn samkvæmt tilnefningu veiðimálastjóra. Nefndinni er ætlað að vera til ráðgjafar og stefnumótunar um fiskeldi, bæði á landi og í sjó og sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin, með gildandi lögum á hverjum tíma.

6. Landbrh. ber við meðferð umsókna um rekstrarleyfi að leita umsagnar dýralæknis fisksjúkdóma, fiskeldisnefndar, fisksjúkdómanefndar og veiðimálastjóra, auk veiðimálanefndar. Einnig ber landbrh. að leita umsagnar Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði gefi tilefni til aukinnar hættu á erfðablöndun. Samkvæmt gildandi lögum ber veiðimálastjóra eingöngu að leita umsagnar veiðimálanefndar og í undantekningartilvikum Veiðimálastofnunar. Ákvæði þetta um fleiri umsagnaraðila er sett til að tryggja enn betur að umsóknir um veitingu rekstrarleyfa fái eins faglega umfjöllun og kostur er.

7. Nýmæli er í frv. að rekstrarleyfi skuli gefið út til fimm ára, en landbrh. getur einnig ákveðið skemmri gildistíma rekstrarleyfis. Eðlilegt þykir að takmarka gildistíma rekstrarleyfis með þessum hætti, þar sem takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir hjá stjórnvöldum um þessa atvinnugrein og því eðlilegt að stjórnvöld endurskoði reglulega ákvarðanir sínar um rekstrarleyfi og önnur atriði er varða slíka starfsemi.

8. Rekstrarleyfi tekur samkvæmt frv. ekki gildi fyrr en veiðimálastjóri og dýralæknir fisksjúkdóma hafa gert úttekt á fiskeldis- og hafbeitarstöð. Samkvæmt núgildandi lögum er óheimilt að gefa út rekstrarleyfi fyrr en veiðimálastjóri hefur gert úttekt á fiskeldis- og hafbeitarstöð. Ákvæði þetta hefur hins vegar ekki reynst raunhæft í framkvæmd þar sem rekstraraðilar eru almennt ekki tilbúnir að leggja fjármuni í fjárfestingar við að byggja stöðvarnar fyrr en rekstrarleyfi er fengið. Því er þessi breyting lögð til.

9. Sett eru ákvæði um skilyrði sem nauðsynlegt þykir að landbrh. setji eða geti sett í rekstrarleyfi til fiskeldis eða hafbeitar. Landbrh. getur m.a. takmarkað stærð og/eða framleiðslumagn stöðvar. Einnig er þar að finna ákvæði um að ef fyrirliggjandi gögn veiti ekki nægilegar upplýsingar til að leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti, geti landbrh. lagt fyrir umsækjanda að láta í té frekari upplýsingar m.a. að framkvæma tilteknar rannsóknir á hvort starfsemi fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar hafi í för með sér aukna hættu á fisksjúkdómum og/eða óæskilegri blöndun fiskstofna. Gert er ráð fyrir að landbrh. geti tekið ákvörðun um slíka rannsóknarskyldu áður en rekstrarleyfi er gefið út. Enn fremur er gert ráð fyrir að rekstrarleyfi kunni að vera gefið út í takmarkaðan tíma og rannsóknarskylda sé lögð á leyfishafa á gildistíma rekstrarleyfis. Niðurstöður slíkra rannsókna kunna að verða lagðar til grundvallar við ákvarðanir um hvort framlengja skuli gildistíma rekstrarleyfis, hvort heimila skuli aukningu í framleiðslumagni o.fl.

10. Nýmæli er í frv. um gjaldtökuheimild fyrir útgáfu rekstrarleyfa svo og ákvæði um að embætti veiðimálastjóra skuli hafa eftirlit með fiskeldis- og hafbeitarstöðvum og um gjaldtöku fyrir slíkt eftirlit.

11. Nýmæli er um að landbrh. sé heimilt að fella rekstrarleyfi úr gildi ef breytingar verða á eldistegundum og/eða framleiðslumagni. Gert er ráð fyrir að landbrh. meti hverju sinni hvort ástæða sé til að fella rekstrarleyfi úr gildi og leggi þá til grundvallar hvort brostnar forsendur séu fyrir rekstrarleyfinu.

12. Einnig er í frv. mikilvægt ákvæði um að ef fiskeldis- eða hafbeitarstöð hefur ekki hafið starfsemi að því marki sem gert er ráð fyrir í rekstraráætlun innan 12 mánaða frá útgáfu rekstrarleyfis, geti landbrh. fellt rekstrarleyfi úr gildi. Sama gildir ef rekstraráætluninni er ekki fylgt eftir þann tíma. Ákvæði þessu er ætlað að sporna gegn því að fiskeldis- og hafbeitarstöðvar eða aðrir aðilar afli sér rekstrarleyfa ef ekki eru fyrirhugaður raunverulegur rekstur á grundvelli leyfisins. Fiskeldi er takmörkuð auðlind og því nauðsynlegt að lögfesta slíkt ákvæði.

13. Enn fremur er í frv. nýmæli um að skylt sé að tilkynna embætti veiðimálastjóra ef fiskeldisstöð missir út eldisfisk og að ítrekaðar slysasleppingar geti leitt til þess að landbrh. taki rekstrarleyfið til endurskoðunar eða felli það jafnvel úr gildi, svo og ákvæði um að ef fiskeldisstöð hefur ekki byrjað veiði innan 12 klukkustunda eftir að hún missti út eldisfisk, geti veiðimálastjóri gefið út almenna heimild til veiða á svæðinu.

[16:15]

14. Þá er í frv. ákvæði um að fiskeldis- og hafbeitarstöðvum sé óheimilt að hefja starfsemi og að óheimilt sé að flytja eldisfisk eða seiði í fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar fyrr en rekstrarleyfi er fengið. Landbrh. getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði.

15. Bann er við flutningi eldistegunda sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi milli fiskeldis- og hafbeitarstöðva. Einnig er bann við flutningum og sleppingum lifandi fisks og fróvgaðra hrogna milli ótengdra vatnasvæða. Veiðimálastjóri getur veitt undanþágu frá þessum ákvæðum. Í núgildandi löggjöf eru ekki skýr ákvæði um þetta, en mjög mikilvægt er að slík ákvæði séu í lögum, þar sem slíkur flutningur getur falið í sér verulega aukna hættu á fisksjúkdómum og óæskilegri blöndun fiskstofna.

16. Þá er í frv. nýmæli um að kynbættan eldislax megi eingöngu nýta til fiskeldis og lagt bann við því að hann sé nýttur til fiskræktar eða hafbeitar. Veiðimálastjóri getur veitt undanþágu frá þessum ákvæðum í vísindalegum tilgangi.

17. Einnig er í frv. ákvæði um bann við innflutningi á notuðum eldisbúnaði. Nauðsynlegt er að lögfesta slíkt ákvæði þar sem innflutningur á notuðum eldisbúnaði getur haft í för með sér verulega hættu á sjúkdómum.

18. Framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfi er óheimil samkvæmt frv. en í samræmi við það verða rekstrarleyfi bundin við þær fiskeldis- og hafbeitarstöðvar sem fá rekstrarleyfi gefin út. Hér er átt við að óheimilt sé að selja, leigja eða veðsetja rekstrarleyfi. Þetta ákvæði kemur þó ekki í veg fyrir að eigendaskipti geti orðið að fiskeldis- eða hafbeitarstöð, ef sami lögaðili með sömu kennitölu, er áfram handhafi rekstrarleyfisins. Með banni við framsali, leiguveðsetningu o.fl. er því átt við að óheimilt sé að selja rekstrarleyfi til annarra lögaðila eða einstaklinga en fengu leyfið útgefið. Samkvæmt því verður hægt að selja fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar sem fengið hafa útgefið rekstrarleyfi, en einstaklingur sem rekur fiskeldis- eða hafbeitarstöð í eigin nafni, getur hins vegar ekki framselt rekstrarleyfið með því að selja það eða leigja reksturinn.

19. Loks eru í frv. víðtækar heimildir fyrir landbrh. til að setja reglugerðir og aðrar stjórnvaldsreglur til að stýra eldisstarfseminni, m.a er þar mikilvægt ákvæði um að landbrh. geti takmarkað eða bannað fiskeldi eða hafbeit eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða landsvæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart slíkri starfsemi, svo og ákvarðað heildarframleiðslu á hverju svæði. Samhliða lögfestingu þessa ákvæðis er gert ráð fyrir að fellt verði brott ákvæði 3. mgr. 15. gr. núgildandi laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, sem fjallar um svipað efni en gengur mun skemur en það ákvæði sem hér er lagt til að verði lögfest.

20. Þá er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að allar fiskeldis- og hafbeitarstöðvar skuli endurnýja rekstrarleyfi sín innan árs eftir að frv. verður að lögum.

Á fskj. með frv. þessu er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa þangað.

Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frv. og athugasemda með því.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frv. en hér er um mikilvægt mál að ræða. Það er von mín að frv. muni leiða til þess að styrkja og treysta starfsemi fiskeldis hér á landi. Jafnframt er það von mín að frv. muni stuðla að því að lægja þær öldur sem staðið hafa um þessa atvinnugrein og verða til farsældar fyrir starfsemi fiskeldis hér á landi í framtíðinni.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.