Vegagerðin

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 13:41:04 (4555)

2001-02-14 13:41:04# 126. lþ. 70.1 fundur 363. mál: #A Vegagerðin# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þær fyrirspurnir sem hér liggja fyrir og mun ég svara þeim. Fyrsta spurningin er: ,,Hve margir starfa nú hjá Vegagerðinni og hve margir störfuðu þar árin 1990 og 1995?`` Hjá Vegagerðinni starfa nú 338 starfsmenn í 331 stöðugildi. Þann 1. janúar voru starfsmenn Vegagerðarinnar 345 í 338 stöðugildum og 341 í 336 stöðugildum 1. janúar 1995.

Á 9. áratugnum fækkaði starfsmönnum Vegagerðarinnar verulega eða úr tæplega 500 starfsmönnum í um það bil 350 og hefur sú tala að mestu haldist óbreytt síðan. Fækkunin stafaði fyrst og fremst af aukningu á útboðum. Gera má ráð fyrir að starfsmannafjöldi Vegagerðarinnar verði svipaður á næstu árum ef forsendur verða óbreyttar í starfsemi stofnunarinnar.

Í öðru lagi er spurt: ,,Hvenær stendur til að öll slitlagsgerð sem framkvæmd er af Vegagerðinni verði boðin út?`` Því er til að svara að bundið slitlag á þjóðvegum er af tvennum toga. Það er malbik á fjölförnustu vegunum og klæðning á öðrum vegum. Malbik hefur verið boðið út að fullu um mjög langt árabil.

Þegar hafist var handa um að leggja klæðningu hér á landi í lok 8. áratugarins vegna þess hversu ódýrt það var samanborið við aðrar gerðir bundins slitlags annaðist Vegagerðin lögn hennar með eigin starfsmönnum. Ýmis rök hnigu að því að hafa þennan hátt á, ekki síst að innleiðsla nýrra aðferða og nýrrar tækni er mun auðveldari og fljótvirkari en ef semja þarf við verktaka um verk sem hvorki verkkaupinn né verktakinn hafa reynslu af. Fyrstu árin lagði Vegagerðin þannig alla klæðningu og hafði um tíma tvo vinnuflokka í þeim verkefnum. Fljótlega fóru verktakar að sýna verkefninu áhuga og lagði þá Vegagerðin annan flokkinn niður. Hefur svo verið um alllangt skeið að Vegagerðin hefur rekið einn vinnuflokk með heimastöð á Akureyri sem fæst einkum við viðhaldsverkefni en sinnir nýlögnum í litlum mæli. Nokkrir verktakar eru í slíkum verkefnum og þegar boðið er út hreint klæðningarverkefni má að jafnaði gera ráð fyrir fjórum tilboðum miðað við reynslu undanfarið. Sömu verktakar leggja klæðningu fyrir aðra jarðvinnuverktaka sem undirverktakar.

Árið 2000 má áætla að vinnuflokkur Vegagerðarinnar hafi verið með um 1/5 af heildarlögn klæðninga sem eru um eða rúmir milljón fermetrar samkvæmt upplýsingum sem Vegagerðin hefur gefið ráðuneytinu.

Vinnuflokkur Vegagerðarinnar er rekinn sem sjálfstæð eining og eru gerðir samningar, byggðir á einingaverðum, við hann um öll verkefni hans. Þau einingaverð eru sambærileg við verð hjá verktökum. Litið hefur verið á flokkinn sem öryggisventil gegn fákeppni eins og Vegagerðin orðar það í greinargerð til ráðuneytisins en sú hætta er gjarnan fyrir hendi á svo litlum markaði eins og hér um ræðir.

Þá hefur flokkurinn sinnt verkefnum sem liggja lengst frá markaðnum og minnst eftirsókn er í af hálfu verktaka. Loks má nefna að rekstur vinnuflokksins hefur verið liður í því að Vegagerðin ráði yfir haldgóðri þekkingu á þessu sviði að mati forsvarsmanna Vegagerðarinnar. Nýjungar og breytingar á aðferðum eru að jafnaði reyndar í vinnuflokknum en í þessum efnum eins og öðru þarf þróun að vera í gangi.

Þess ber hins vegar að geta að þetta verkefni hlýtur að fara vaxandi eftir því sem bundið slitlag lengist í vegakerfinu. Af þeirri ástæðu má gera ráð fyrir að í þeim efnum sem öðrum fylgi þessi starfsemi þeirri þróun að Vegagerðin bjóði þetta allt út og er þess að vænta að svo verði.

Í þriðja lagi er spurt hvernig einingaverð í kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar hafi breyst á tilteknum tíma. Á umræddu tímabili hefur vísitala Vegagerðarinnar hækkað um 6,5% og ætti þá einingaverð að hækka samsvarandi. Hér er um meðaltalshækkun að ræða og er rétt að geta þess að vísitalan er ekki alltaf góður mælikvarði þegar einstakir þættir hennar hækka mjög mikið en aðrir standa í stað eða því sem næst. Auk þess eru einingaverð endurskoðuð með reglubundnu millibili með hliðsjón af tilboðsverðum verktaka í útboðsverkum. Áhrif tilboðsverðanna á einingaverð eru breytileg eftir verkþáttum en líklegt má telja að heildaráhrif þeirra á tímabilinu séu heldur meiri en vísitalan segir til um og hefur verið reynt að koma til móts við verktaka vegna þess.

Ég mun svara síðasta lið fyrirspurnarinnar í seinni ræðutíma mínum.