Sjúkraflug

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:03:54 (4564)

2001-02-14 14:03:54# 126. lþ. 70.2 fundur 405. mál: #A sjúkraflug# fsp. (til munnl.) frá samgrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:03]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ekki er björgulegt ef þeir sem eiga að sjá til þess að hægt sé að fljúga af völlunum eru ekki á bakvöktum þegar sjúkraflug þarf að fá forgang. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara skýrt. Það var verið að spyrja tveggja einfaldra spurninga, þ.e. hvort hann ætlaði að beita sér fyrir því að bakvakt yrði tryggð og hvenær. Mér fannst að óljós svör kæmu við báðum þessum spurningum.

Það liggur fyrir að hjá heilbrigðiseftirlitinu könnuðust menn ekki við þessar reglur og vísuðu á samgrn. Þar á bæ vissu menn um þennan ágalla en engin svör voru um það hvenær yrði úr bætt eða hvort það yrði úr þessu bætt. Hæstv. ráðherra hefur góð orð en mér finnst að í seinni ræðu sinni ætti hann kannski að reyna að koma mönnum í betri skilning um hvort það eigi að taka á þessu máli strax þannig að ekki hljótist af þessu slys og vandræði og hvenær bráðabirgðaúrræði verði til staðar í málinu.