Sjúkraflug

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:16:59 (4573)

2001-02-14 14:16:59# 126. lþ. 70.2 fundur 405. mál: #A sjúkraflug# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Flm. KLM (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég kem til að mótmæla síðustu orðum hæstv. samgrh. Ég er ekkert að gefa í skyn að starfsmenn Flugmálastjórnar standi sig ekki í stykkinu. Þeir hafa sennilega staðið sig miklu betur en ýmsir aðrir, við þetta útboð og þessa vinnu. Og ég blæs á það að verið sé að snúa þessari umræðu yfir á það. Ég held að starfsmenn Flugmálastjórnar víða úti um land hafi æðioft tekið að sér sjálfboðavinnu við að vera á bakvakt og sinna sjúkraflugi sem skyndilega getur komið upp. Ég mótmæli því þessum dylgjum sem mér finnst koma fram hér í minn garð vegna þessarar fyrirspurnar. Ég tek það skýrt fram og vil láta það koma skýrt fram að starfsmenn Flugmálastjórnar nánast um allt land hafa staðið sig mjög vel. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um hið frábæra, skulum við segja, útboð þar sem tvinnað var saman sjúkraflugi og farþegaflugi, um það að fyrsti aðilinn sem á að koma að þessu flugi er ekki á bakvakt og það er engin trygging fyrir því að hann sé á staðnum þegar skyndilega er þörf á sjúkraflugi. Þetta vildi ég láta koma fram. (Gripið fram í.) (KPál: Sannleikanum er hver sárreiðastur.)