Endurgerð brúar yfir Ströngukvísl

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:15:30 (4604)

2001-02-14 15:15:30# 126. lþ. 70.6 fundur 398. mál: #A endurgerð brúar yfir Ströngukvísl# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í virkjunarsamningi milli ríkisins annars vegar og viðkomandi sveitarstjórna um Blönduvirkjun, dags. 15. mars 1982, var kveðið á um ýmsar vegabætur sem virkjunaraðilar skyldu annast sem hluta af bótum sem hlytist af gerð miðlunarlóns virkjunarinnar eða óþægindum og óhagræði sem af byggingu virkjunarinnar leiddi. Hluti af þeim samgöngubótum á Eyvindarstaðaheiði og Auðkúluheiði var bygging brúar yfir Ströngukvísl, en hún fellur að austanverðu í Blöndu um 10 km sunnan miðlunarlóns Blönduvirkjunar. Brúin var reist á árunum 1984 og 1985 og hefur nánast ekkert verið notuð fyrir almenna umferð enda eru aðeins torfærar slóðir og erfiðar ár yfir að fara þar fyrir sunnan. Brúin hefur hins vegar verið notuð frá upphafi fyrir flutning sauðfjár og hrossa suður í Guðlaugstungur sem eru sunnan Ströngukvíslar.

Í miklum vetrarleysingum á útmánuðum árið 2000 ruddi Strangakvísl sig með þeim afleiðingum að jakar hrifu með sér brúardekkið niður eftir ánni. Við vettvangsskoðun sumarið 2000 kom í ljós að smíða þyrfti nýtt brúardekk. Sama vor kom fram ósk frá heimamönnum um að brúarundirstöður yrðu hækkaðar frá því sem verið hafði til að draga úr líkum á því að brúin yrði fyrir skemmdum. Sumarið 2000 var unnið að undirbúningi þess að gera nauðsynlegar endurbætur á brúnni.

Um síðustu áramót gerði Landsvirkjun annars vegar og fulltrúar sveitarstjórna beggja vegna Blöndu hins vegar samkomulag um viðauka við virkjunarsamning aðila frá 1982. Hann felst í því m.a. að heimamenn taka yfir skyldur virkjunaraðila varðandi viðhald girðinga á viðkomandi afréttum og viðhaldi vega að hluta. Í samræmi við samkomulagið við heimamenn hefur Landsvirkjun jafnframt gert samning við Vegagerðina um viðhald annarra vega á heiðunum en jafnframt er gert ráð fyrir því að Vegagerðin nýti Blöndustíflu sem hluta vegar frá Kjalvegi yfir á Vesturheiðarveg sem tengja mun saman vegi og vegslóða á Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði.

Í samningi Vegagerðarinnar og Landsvirkjunar er ákvæði um að Vegagerðin muni vorið 2001 endurnýja brúargólf Ströngukvíslarbrúar og jafnframt er gert ráð fyrir því að Vegagerðin muni bjóða út fyrirhugaða hækkun á brúarstöplum. Þessi verk verða væntanlega unnin seinni hluta sumars þegar fært verður þeim tækjum og vinnuvélum sem til þarf. Samtals er áætlaður kostnaður við endurbyggingu brúarinnar um 24 millj. kr.

Sem svar við síðari spurningunni vil ég segja þetta: Í máli mínu hér hef ég rakið á hvern hátt staðið hefur verið að málum við endurgerð brúarinnar og fæ ég ekki séð að ráðherra þurfi á einn eða annan hátt að beita sér í þessu máli. Fullt tillit hefur verið tekið til ábendinga heimamanna varðandi breytingar á brúnni sem hafa valdið því að endurgerð hennar tefst um eitt ár.

En eins og ég hef rakið hér á undan er staðið fullkomlega eðlilega að undirbúningi verksins.