Staða sjávarbyggða

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:43:46 (4618)

2001-02-14 15:43:46# 126. lþ. 70.7 fundur 404. mál: #A staða sjávarbyggða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi varð fyrir vonbrigðum með svör mín og vill aðgerðir og hef ég heyrt það áður. Hann hefur ekki trú á að þessi mál verði leyst með hátækni eða öðrum slíkum nýjum greinum, það hef ég heyrt hann segja, heldur hefur hann trú á því að leysa þurfi þessi vandamál sjávarbyggða í gegnum landbúnað eða sjávarútveg. Ég er hins vegar ósammála honum um það og skoðun mín er sú að nýjar greinar þurfi til að bæta stöðu þeirra byggða sem veikastar standa og ég mótmæli því að vandamálið sé fyrst og fremst fiskveiðistjórnarkerfið. Það er mjög mikil einföldun þegar hv. þingmenn sem ekki hafa nokkur úrræði halda því fram að þetta sé allt saman fiskveiðistjórnarkerfinu að kenna. Þetta er nokkuð sem við heyrum oft hér á Alþingi og er í sjálfu sér þægileg afsökun og þægileg skýring fyrir þá sem ekki hafa skýringar og ekki hafa tillögur, en hún gengur ekki upp og þetta sjáum við t.d. í sambandi við þá erfiðleika sem núna, vonandi tímabundið, standa yfir í Vestmannaeyjum.

[15:45]

Einn hv. þm. talar nánast alltaf um að stefna ríkisstjórnarinnar í byggðamálum sé eyðibyggðastefna þegar hann stígur hér í stól. (GAK: Eyðibyggðastefna, já.) Þetta er ósanngjarnt og ómálefnalegt og ætti ekki að heyrast á hv. Alþingi.

Einn hv. þm. talar um að búið sé að úthluta nógu lengi. Það er búið að úthluta nógu lengi. Vita þessir hv. þm. ekki hvað rekstraröryggi er? Eða öryggi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og útgerða? Það er ótrúlegt að hv. þm. leyfi sér að skauta svona yfir sviðið (Forseti hringir.) en ég veit að tíminn er stuttur.