Fasteignamat ríkisins og Landskrá fasteigna

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 16:23:47 (4633)

2001-02-14 16:23:47# 126. lþ. 70.10 fundur 395. mál: #A Fasteignamat ríkisins og Landskrá fasteigna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[16:23]

Fyrirspyrjandi (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég vil bara byrja á því að taka undir með síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Norðurl. e., og hv. þm. Tómasi Inga Olrich. Það er ánægjulegt að fá þau svör frá hæstv. fjmrh. að undirbúningur sé í fullum gangi. En ég vil hnýta því aftan í að ég tel að það hefði verið heppilegra fyrir málið að starfsmaður hefði komið þegar að undirbúningnum á Akureyri frá áramótum vegna þess að mér er kunnugt um að bara í byggingunni þar sem Fasteignamat ríkisins er rekið núna vinna líklega um 30 manns sem eru við hugbúnaðarstörf og þar eru rekin myndarleg fyrirtæki. Maður hefði því ímyndað sér að heimamenn eða starfskraftar sem duga ágætlega fyrir stórfyrirtæki og stofnanir hefðu getað verið með í þeirri vinnu og kannski eytt tortryggni um það að einhver seinagangur væri í gangi og menn ætluðu að draga lappirnar í þessu máli.

En enn og aftur lýsi ég ánægju minni með svör hæstv. ráðherra og við vonum að það gangi greiðlega fyrir sig að Landskrá fasteigna taki til starfa í höfuðstað Norðurlands.