Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:26:14 (4649)

2001-02-15 11:26:14# 126. lþ. 71.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:26]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér hefur farið fram ágæt og gagnleg umræða um Evrópumálin og aðkomu verkalýðshreyfingar að ýmsum félagslegum efnum og með hvaða hætti íslensk verkalýðssamtök koma að ákvarðanatöku í Evrópu. Þetta á við um Alþýðusamband Íslands og BSRB sem aðild eiga að Evrópusambandi verkalýðsfélaga og það er mikilvægt að hlúa að þessu starfi.

En ég vil vekja athygli á því að starf verkalýðshreyfingarinnar á alþjóðavettvangi tekur ekki aðeins til Evrópusambandsins eða til Evrópu heldur er heimurinn þar allur undir og staðreyndin er sú að verkalýðssamtök í Evrópu eru í ríkari mæli farin að horfa til allra átta en einskorða sig ekki við Evrópu eina. Menn gera sér grein fyrir því að mikilvægar ákvarðanir eru nú teknar á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, á vettvangi OECD. Þar fara fram umræður sem snerta okkur mjög um framhald svokallaðra GATT-samninga sem taka til viðskipta, hugsanlega á sviði opinberrar þjónustu. Þetta er nokkuð sem verkalýðshreyfingin horfir mjög til. Menn kunna að minnast hinna svokölluðu MAI-samninga ekki alls fyrir löngu eða draga að þeim, þeir urðu aldrei að veruleika, sem lágu fyrir á vettvangi OECD, Multilateral Agreement on Investment hétu þeir, sem hefðu skapað miklar hættur og reist skorður fyrir lýðræðislegum ákvörðunum ef þeir samningar hefðu orðið að veruleika. Það voru Frakkar sem einkum stóðu þá í ístaðinu. Samningarnir gengu út á það að banna aðildarríkjum samningsins að mismuna fyrirtækjum sem kæmu til með að fjárfesta innan þeirra landamæra, og það var ekki síst franskur kvikmyndaiðnaður sem hafði þar áhyggjur af því að samningurinn mundi koma í veg fyrir stuðning frá franska ríkinu við franskan kvikmyndaiðnað sem átti þá í vök að verjast gagnvart bandarískum iðnaði. Þessar hugmyndir eru nú til umræðu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og einnig á vettvangi OECD og til allra þessara þátta horfir að sjálfsögðu verkalýðshreyfingin. Svo dæmi sé tekið á BSRB vissulega aðild að Evrópusambandi verkalýðsfélaga en einnig að Evrópusambandi og alþjóðasambandi starfsfólks sem starfar í almannaþjónustu.

Ég vildi bara leggja áherslu á að við höfum ekki of þröngt sjónarhorn þegar við erum að skoða samskipti verkalýðshreyfingarinnar við útlönd. Það er mikilvægt að stuðla að starfi sem fram fer á vettvangi Evrópusambandsins og EFTA. Það er mikilvægt en við skulum gæta að okkur að hafa sjónarhornið ekki þrengra en nauðsyn krefur.