Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:55:57 (4677)

2001-02-15 12:55:57# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:55]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það hefur margoft komið hér fram að aðaláherslan í þessari íþrótt er ekki að rota andstæðinginn eða koma á hann höggi á höfuðið. (Gripið fram í: Það gefur stig.) Ef menn gefa rothögg þá eru menn dæmdir úr leik.

Það eru margir félagsfræðingar og kennarar erlendis sem vilja að þessi grein sé stunduð vegna þess að hún kemur í veg fyrir árásarhneigð margra ungra drengja og stúlkna, eins og kom fram í máli hv. þm. Ástu Möller. Það er alveg með ólíkindum hvað hv. þingmenn í rauninni misskilja málið. Þetta gengur ekki út á atvinnumannahnefaleika. Þetta er íþrótt sem er ágæt fyrir iðkendur. Aðalatriðið er ekki að slást. Þetta er íþrótt sem hentar þeim sem vilja komast í góða þjálfun og til að losa sig við aukakílóin. Ég held að ágætt væri ef hv. þingmenn fengju að koma í heimsókn til þeirra sem kunna þessa íþrótt og þeir sýndu okkur hvernig farið er að.

Á Íslandi er verið að iðka alls konar íþróttir, alls konar bardagatækni sem er leyfð en þessi grein er ekki leyfð. En það er verið að fara fram á að hún verði undir eftirliti Íþróttasambands Íslands sem ég tel vera eitt aðaláhersluatriðið að verði gert.