Atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 14:03:32 (4692)

2001-02-15 14:03:32# 126. lþ. 71.94 fundur 304#B atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[14:03]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. málshefjandi er að agnúast út í 60 daga regluna. Ég tel að 60 daga reglan sé einmitt til að auka öryggi fiskverkafólks. Atvinnuleysistryggingasjóður hleypur undir bagga með fyrirtækjum þessa 60 daga. 60 daga reglan var alveg tvímælalaust veruleg hagsbót og sem betur fer nota æ fleiri fyrirtæki sér 60 daga regluna fremur en að rjúfa ráðningarsamninga við fólk eða reka það heim kauplaust.

Það er ekki hægt að kenna fiskveiðistjórninni um atvinnuleysi í fiskvinnslu í dag. Það er nægur kvóti til staðar þar sem atvinnuleysið er og á Vestfjörðum kemur að landi svipað magn af botnfiski og var fyrir daga fiskveiðistjórnarkerfisins. Þar sem atvinnuleysi hefur komið er það vegna fjárhagslegra áfalla einstakra fyrirtækja, nema í Vestmannaeyjum en öllum er kunnugt um að þar varð bruni.

Það er hægt að salta meiri fisk á Bolungarvík, það er lítið mál þar til rækjuverksmiðjan kemst í gang. Í Vestmannaeyjum er fullkomið og vel starfhæft frystihús lokað. Sem betur fer er nóg framboð af rækju og afurðaverð á uppleið. Hagsmunir fiskverkafólks hafa legið eftir sem og hagsmunir sveitarfélaganna, það er alveg rétt en 1,6% atvinnuleysi er með því minnsta í heiminum. Við erum með sex þúsund útlendinga að störfum. En það var 7% atvinnuleysi í ársbyrjun 1995.