Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 14:06:18 (4693)

2001-02-15 14:06:18# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Steingrímur J. Sigfússon (frh.):

Herra forseti. Mér telst svo til að nú hefjist þriðja lota í umræðu um þetta brýna framfaramál (Gripið fram í.) --- þær geta orðið býsna margar sjálfsagt --- sem nokkrir hv. þm., með hv. þm. Gunnar Birgisson í broddi fylkingar, hafa flutt og gengur út að lögleiða hnefaleika.

Það sem vekur í fyrsta lagi athygli mína, herra forseti, og ég vil draga fram er að um er að ræða, eins og segir í 1. mgr. grg. með frv., endurflutning á frv. sem fellt var í fyrra og frv. er flutt óbreytt frá því að Alþingi hafnaði því á vordögum eða einhvern tíma undir lok 125. löggjafarþings.

Nú er það auðvitað svo, herra forseti, að samkvæmt þingsköpum geta menn endurflutt mál svo fremi sem það sé ekki á sama þingi. Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram að það sé frekar óvenjulegt að þingmannafrv. af þessu tagi, sem hefur þó fengið afgreiðslu, sem er meira en sagt verður um velflestar tillögur og þingmál þingmanna, hefur fengið formlega og fullkomna afgreiðslu á þinginu og verið fellt, birtist á nýjan leik strax haustið eftir. Ég hefði talið að venjan væri að menn biðu a.m.k. eftir því að einhverjar líkur væru til að forsendur hefðu breyst, t.d. að búið væri að kjósa á nýjan leik og þing öðruvísi saman sett. Hér liggur hins vegar eitthvað mikið undir. Hér er greinilega mikið í húfi því að það er rokið til og þetta mikla framfaramál endurflutt strax á næsta þingi óbreytt. Það er ekki einu sinni vikið við stafkróki. Það er ekki látið á það reyna hvort þingið vildi í breyttu samhengi kannski taka við málinu sem það hafnaði í fyrra. Nei, það er endurflutt algerlega óbreytt.

Þetta er greinilega mikið forgangsmál, svo mikið forgangsmál að hv. 1. flm., hv. þm. Gunnar Birgisson, hefur greinilega valið að einbeita sér alveg að þessu máli. Ég held að ég fari rétt með að þetta sé eina þingmálið sem hv. þm. hefur flutt eftir nærri tveggja ára veru á þingi, þ.e. eina frv. eða tillagan sem hv. þm. hefur flutt. Mikið er í húfi. Hv. þm. hefur greinilega ákveðið að einbeita sér algerlega að þessu máli, að ná fram þessu baráttumáli sínu að lögleiða hér hnefaleika. Þar liggur greinilega mikið undir.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að Alþingi Íslendinga hafi margt þarfara við tíma sinn að gera en eyða honum í þetta mál. (Gripið fram í.) Ég sé ekki að við þurfum helst á þessu að halda, þ.e. að hampa þeim sjónarmiðum eða gildum sem að baki þessu liggja eða koma þessu máli hér fram.

Ég hefði frekar viljað sjá Alþingi Íslendinga taka tíma sinn í að gera áætlanir um aðgerðir gegn þeirri ofbeldisdýrkun sem veður uppi í þjóðfélaginu. Misjöfnu mega þingmenn sæta, herra forseti. Sá sem hér talar hefur margflutt till. til þál. um aðgerðir gegn því flóði ofbeldisefnis og ofbeldisdýrkun sem veður uppi í samfélaginu hér eins og víða annars staðar á Vesturlöndum. Sú tillaga hefur aldrei fengið afgreiðslu. Hún hefur sofnað í nefnd en þetta mikla mál hefur þó fengið hér afgreiðslu og verið fellt. Samt er tími Alþingis tekinn í að ræða það.

Ég tel að þetta frv. sé gegn þeirri þróun sem núna er sjáanleg í margvíslegu tilliti, bæði hér á landi og víðar. Ég held að menn séu sem betur fer að endurskoða hug sinn gegn því að hafa sleppt meira og minna lausu ýmsu sem snýr að ofbeldisdýrkun og dýrkun á bardagaaðferðum, vopnum og drápstólum. Í raun hefur slíkt meira og minna flætt hömlulaust yfir vestræn samfélög. Af hverju eru menn að endurmeta stöðu sína gagvart þessum hlutum, a.m.k. víða annars staðar en á Íslandi? Það er vegna þess að menn hafa áhyggjur af því ofbeldi og glæpum og þeim grófu ofbeldishefðum sem allar kannanir sýna að gera æ meira vart við sig t.d. í skólum og víðar og eru tilefni mikillar umfjöllunar og m.a. rannsókna á áhrifum ofbeldisefnis í sjónvarpi.

Er þetta mál endilega skynsamlegt innlegg og það sem við Íslendingar ættum að leggja til málanna, sem höfum þó getað flaggað einu. Við höfum ekki leyft þessa ofbeldis\-íþrótt, hnefaleika. Eigum við nú að snúa við blaðinu og leyfa hana? Ég segi nei. Ég held að okkur væri sæmra að fara um heiminn með þann fána við hún að við værum gott fordæmi í þessu efni og þyrðum að vera það, værum ófeimnir við það.

Staðreyndin er sú að sú ákvörðun Íslendinga á sínum tíma, að banna hnefaleika og hafa ekki leyft þá aftur, vekur aukna athygli. Það vill nú svo til. Það er vitnað til þess nú í umræðum í Bretlandi. Ég hef orðið var við það á hinum Norðurlöndunum að þar er í vaxandi mæli spurst fyrir um þetta merkilega framlag af Íslands hálfu, að hafa þetta svona. Þar eru líka umræður um hvort ekki sé ástæða til að fara að endurmeta reglur um hluti af þessu tagi.

Ég held, herra forseti, ef menn telja þetta eitthvert sérstakt framfaramál í íþróttalegu tilliti, að þá sé nóg af góðum og hollum íþróttagreinum til að stunda fyrir æsku þessa lands og almenning allan, án þess að þar þurfi að bæta hnefaleikum við, bæta því við að menn lemji hver á öðrum með skipulögðum hætti. Um það snýst þetta. Ég ætla að ganga svo langt að leyfa mér að segja að ég tel þetta ekki vera íþrótt. Ég tel að við séum komnir út á mjög hála braut ef við göngum svo langt í að túlka íþróttahugtakið þannig að það taki yfir athæfi af þessu tagi. Þá koma menn væntanlega og segja unnvörpum, ef ég þekki umræðuna rétt: Já, en hvað með tae kwon do og hvað þær heita allar hinar bardagalistirnar? Hvað með sparkbox og annað slíkt? Sem sagt: Svo skal böl bæta að benda á annað verra, eða a.m.k. jafnvont. Þá segi ég: Við skulum þá frekar skoða þær íþróttir en að nota þær sem rök fyrir því að leyfa þessa, ef íþróttir skyldi kalla sumar hverjar.

Við skulum frekar fara yfir málið út frá þeim hugsunarhætti að það geti vel verið, bæði samræmisins vegna og líka af efnislegum ástæðum, rétt að fara yfir það hvort við erum kannski of sofandi á verðinum gagnvart öðru athæfi sem menn hafa leyft og kallað íþróttir. Ég er til í það með hv. þm. ef það vakir sérstaklega fyrir þeim. Er frekar hægt að ná samstöðu á Alþingi um það og láta reyna á að snúa málinu við og fara frekar í leiðangur sem miði að því að skoða hvort ekki sé ástæða til að taka á eða setja strangari reglur um ýmislegt annað sem hér hefur viðgengist?

Ég tek undir með hv. þm. Katrínu Fjeldsted, að þetta tal um ólympíska hnefaleika er að mínu mati frekar afvegaleiðandi. Ég tel að nær væri að tala um áhugamannahnefaleika. Vissulega ber að virða það að menn eru ekki að leggja til að leyfa atvinnumannahnefaleika en því miður er það svo, þegar betur er að gáð, að það skiptir minna máli en menn kunna að ætla þegar farið er yfir heilsufræðilegar upplýsingar í málinu.

[14:15]

Vel er mér ljóst að málið er umdeilt. Það er hægt að reiða fram læknisfræðilegar greinargerðir og rannsóknir á ýmsa vegu í þessum málum. Ég hef reynt að lesa mér til um þetta efni og rætt við ýmsa sérfróða aðila og það hefur nægt til að sannfæra mig um að læknisfræðilegu rökin í þessu máli hnígi mun sterkar í þá átt að þetta eigi ekki að leyfa. Það er algjörlega á hreinu.

Ég hef margar fleiri ástæður fyrir því en þær. Þær eru siðræns eðlis og lúta líka að því að ég tel að við Íslendingar eigum ekki að meta sjálfa okkur svo lítils að þora ekki að hafa sjálfstæða pólitík í máli af þessu tagi. Sú röksemd sem maður heyrir hvað oftast er að þetta sé eiginlega alls staðar annars staðar leyft og þar með hljóti að vera rétt að gera það. Er ekki einmitt prýðilegt að Íslendingar, sem vopnlaus þjóð og friðelskandi eins og við viljum nú vera, þjóð sem væntanlega hefur ekki mikið álit á ofbeldi eða slíkum athöfnum, séu bara góð fyrirmynd í þessum efnum og boði með öðrum þjóðum það fagnaðarerindi að þær eigi að skoða þetta hjá sér og fara frekar að okkar fordæmi?

Gæti ekki vel átt eftir að koma upp hreyfing fyrir því að ýta út þeim íþróttagreinum sem byggja á ofbeldislegu athæfi og geta skaðað fólk í stórum stíl? Þá er ég ekki að tala um það í þeim skilningi að menn geti orðið fyrir slysum, eins og alls staðar getur gerst, heldur vegna þess að íþróttin sjálf feli í sér athæfi sem býður upp á slysin sem slík. Svo hlýtur auðvitað að vera þegar reynt er að greiða andstæðingi sínum högg með krepptum hnefa og það í höfuðið. Gjarnan er lokatakmarkið að reyna að koma höfuðhöggi á andstæðinginn og slá hann þannig út.

Á undan mér hafa aðrir, herra forseti, farið rækilega yfir þá þætti málsins. Ég get að mestu leyti vísað til þess. Ég vísa t.d. til þeirra ágætu upplýsinga sem dregnar voru inn í þessa umræðu fyrir afgreiðslu málsins í fyrravor. Þar voru reiddar fram upplýsingar úr læknisrannsóknum og greinar lækna í íslenskum blöðum og fleiri sérfræðinga á heilbrigðissviði voru dregnar fram. Það hefur verið sýnt að þessir áverkar, höfuðáverkar, hafa algjöra sérstöðu meðal annarra áverka. Þegar heilinn rekst á höfuðkúpuna, sem gerist í höfuðhöggum af þessu tagi, þá verða smátt og smátt skemmdir sem í raun eru ekki sambærilegar við neinn annan líkamsskaða, helst sambærilegar við krónískar innvortis blæðingar á viðkvæmum stöðum eða aðra slíka hluti. Ég vísa í aðalatriðum til þess.

Ég vil að lokum gera eitt að umtalsefni í viðbót sem ég hef heyrt hér líka í umræðunni, þ.e. að það sé ólíðandi forræðishyggja og íhlutun í athæfi sem mönnum eigi að vera frjálst að hafa reglur um þetta efni. Þetta heyrum við þingmenn oft notað í umræðum. Engir eru duglegri við þetta en stuttbuxnadeildir Sjálfstfl., að nota þetta sem algilda réttlætingu fyrir því að ýta meira og minna til hliðar reglum sem samfélagið hefur sett sér. Maður fær stundum á tilfinninguna að menn vilji helst bara leggja niður umferðarreglur því það sé allt svo voðaleg forræðishyggja. Hvert lenda menn með slíku tali?

Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að menn rökstyðji og réttlæti þær reglur sem settar eru. En að það að hafa reglur sé eitthvað ljótt í sjálfu sér er furðulegur málflutningur. Hvar væri hið siðaða og skipulagða samfélag mannanna ef engar mættu vera reglurnar? Þær eiga að vera vel ígrundaðar, þær eiga að vera sanngjarnar og almennar og þær eiga að vera í þágu almannaheilla og -hagsmuna. Um það skulum við ræða en ekki hitt hvort hafa megi einhverjar reglur af þessu tagi. Auðvitað veit ég að það dettur ekki einasta manni hér í salnum í hug að leyfa hvað sem er undir því yfirskyni að það sé íþrótt, auðvitað mundum við ekki gera það. Ef einhver kæmi hérna á morgun og vildi fara að taka upp rússneska rúllettu sem löggilta keppnisgrein, mundum við leyfa það? Nei auðvitað ekki.

Ég held að við getum ekki byggt umræðuna á þeim grunni að ekki komi til greina að Alþingi Íslendinga, æðsta stofnun þjóðarinnar, ákveði niðurstöðuna með lögum. Við skulum ræða um hitt, hvort það sé efnislegt og skynsamlegt að hafa hlutina svona eða hinsegin. Þá getum við væntanlega líka stytt umræðuna því talsvert af þessu þrasi hingað til hefur verið um hvort málið eigi að velta á ákvörðun Alþingis, hvort það eigi að ráða niðurstöðunni í málinu. Ég sé ekki hver annar ætti að gera það, nema menn vilji fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Ég á nú ekki von á því.

Ég tel að fullnægjandi rök sem lúta að heilbrigði og hollustu eða með því að snúa því við, lúta að þeirri hættu á heilsutjóni sem saklausum iðkendum þessa athæfis væri búið, nægi ein og sér til að banna þetta. Ég tel í öðru lagi að siðræn rök hnígi að því að æskilegt væri að vera laus við þetta. Þetta er íþrótt sem í grunninn byggir á ofbeldislegu athæfi, eins og því miður að vísu mjög margt annað sem við sjáum flæða yfir okkur, t.d. í tölvuleikjum og öðru slíku. Þetta byggist því miður meira og minna á einhvers konar ofbeldishegðun, drápi, að vísu í myndrænu formi á tölvuskjá, en í grunninn snúast leikirnir um ofbeldi. Það er óæskilegt eða hvað? Getum við ekki verið sammála um að heldur lakara sé að svo þurfi að vera? Jú, ég held það og þá er það mínus fyrir þessa grein.

Engu slíku er til að dreifa þegar menn keppa í spretthlaupi. Tökum aðrar íþróttir þar sem andstæðingarnir snertast ekki, tökum sem dæmi mína ágætu, gömlu keppnisgrein, blak. Þar eru liðin aðskilin með neti og komast nánast ekkert í snertingu hvort við annað. Þar er engu slíku til að dreifa. Menn hafa ekki færi á að vera með tuddaskap og bolaskap, lemjast, skallast eða eitthvað því um líkt.

Þannig er nóg af góðum greinum sem ekki hafa í sér fólgna þessa undirliggjandi, neikvæðu, gildishlöðnu tilvísun sem felst í athæfinu sem horfir til ofbeldis. Ég held, herra forseti, að það sé miklu nær að skoða frekar aðra hluti út frá samhenginu. Það kann vel að verða niðurstaðan, ég yrði ekki hissa þó að það ætti eftir að verða, að við sæjum fram á þá tíma að reynt verði að setja reglur sem takmarki, ekki bara þessa íþrótt heldur jafnvel fleiri sem eru henni skyldar um margt.

Ég, herra forseti, á ekki í minnstu erfiðleikum með að greiða atkvæði á sama hátt og síðasta vor fyrst þessi ósköp þurfa að ganga hér til atkvæða ár eftir ár. Mér finnst það hálfgerð tímasóun. Alþingi er búið að taka afstöðu í þessu máli á þessu kjörtímabili og fella frv. Mér hefði fundist meiri manndómsbragur að því hjá þessum miklu keppnismönnum sem hér ætla að endurflytja þetta frv., þessum miklu íþróttamönnum, ef þeir kynnu að tapa. Sú var tíðin þegar ég var í íþróttum að það þótti bráðnauðsynlegt fyrir íþróttamenn að kunna að tapa. Ég verð að segja að flutningsmenn þessa máls, sem töpuðu hér í fyrra, kunna það ekki.