Staða Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 15:23:38 (4756)

2001-02-19 15:23:38# 126. lþ. 72.91 fundur 306#B staða Íslands í Evrópusamstarfi# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég get nú ekki orðið annað en ósammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að engin breyting hafi orðið á stöðu okkar gagnvart EES. Ég tel það ákaflega alvarleg tíðindi ef Íslendingar og raunar aðrar EFTA-þjóðir eiga ekki lengur kost á því að hafa fulltrúa í mikilvægum nefndum þar sem fjallað er um reglur sem við þurfum síðan að taka upp.

Ég tel einnig ákaflega alvarlegt að heyra það hjá hæstv. utanrrh. að hann óttist að sú túlkun sem þarna ræður för láti líka á sér kræla á öðrum sviðum því að ef svo er þá sé ég ekki betur, herra forseti, en að í það stefni að nefndastarf okkar við Evrópusambandið í gegnum EES sé e.t.v. að komast í uppnám.

Í reynd finnst mér að þessi þróun þýði það eitt að möguleikar okkar til að hafa áhrif á þær reglur og lög sem eiga að gilda á Íslandi verði snöggt um minni en áður og það hlýtur að vera erfitt fyrir fullvalda þjóð. Mér sýnist, herra forseti, að þetta mál sýni því í hnotskurn að EES-samningurinn eldist ekki með þeim hætti sem væri ákjósanlegast fyrir okkur Íslendinga.

Þessu til viðbótar hefur það komið næsta skýrt fram hjá viðmælendum íslenskra fjölmiðla innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að stækkun þess muni óhjákvæmilega koma niður á EFTA-ríkjunum. Það eru svo sem ekki mikil tíðindi fyrir okkur sem höfum einmitt verið að inna hæstv. utanrrh. eftir því hér í þessum sölum.

Þó að menn hljóti að undrast þá óbilgirni sem kemur þarna fram af hálfu ESB í þessu tiltekna máli og þau skýru skilaboð sem maður les úr þeim, þá kemur þessi þróun ekki að öllu leyti á óvart. Hvernig eiga menn svo að bregðast við? Ja, það er sjálfsagt að skoða hvort hægt sé að bæta samninginn við EES. En hæstv. utanrrh. hefur áður sagt það í útvarpi að nánast vonlaust mál sé að ná fram breytingum. Og ef í ljós kemur að ekki sé hægt að ná fram þessum breytingum er þá hæstv. utanrrh. reiðubúinn til þess að skoða aðild að Evrópusambandinu svo fremi sem hægt verði að ganga frá sjávarútvegsmálum með viðunandi hætti fyrir Íslendinga? Ég held sjálfur að það hljóti að vera í ljósi þessara tíðinda miklu nærtækari kostur nú en áður.