Staða Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 15:28:30 (4758)

2001-02-19 15:28:30# 126. lþ. 72.91 fundur 306#B staða Íslands í Evrópusamstarfi# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég er ekki í hópi þeirra sem telja að þær skuldbindingar sem Íslendingar hafa undirgengist í samningum við Evrópusambandið hafi allar verið okkur til góðs. Varðskipsmálið minnir okkur nú síðast á hvernig þessar skuldbindingar hafa skert möguleika okkar til atvinnuuppbyggingar á Íslandi og frelsis til eigin athafna. Við skulum gá að því að innan Evrópusambandsins eru þessar skuldbindingar miklu fastar reyrðar en utan. Ég er því ósammála Samfylkingunni um að það þjóni hagsmunum Íslands að njörva okkur enn fastar niður í Evrópusamrunanum með aðild að Evrópusambandinu.

Hitt er svo annað mál að okkur ber að nýta öll þau tækifæri sem við höfum til að hafa áhrif innan Evrópu. Það eiga samtök einnig að gera, verkalýðshreyfingin t.d. Stærstu samtök hennar, ASÍ og BSRB, eiga aðild að Evrópusamstarfi verkalýðshreyfingarinnar. En innan þessarar hreyfingar er aukin vitund um það nú hvað alþjóðavæðing fjármagnsins hefur í raun í för með sér. Það virðir ekki landamæri einstakra þjóðríkja og ekki heldur Evrópusambandsins. Ég held að það sé aukin vitund um nauðsyn þess að horfa víðar, að horfa til heimsins alls, að fylgja því sem er að gerast á sviði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, innan OECD, svo dæmi séu tekin. Við þurfum að gæta okkar á því að hafa víðara sjónarhorn á heiminn en það sem tekur til Evrópu einnar. Ef við ekki gerum það er hætta á því að við forpokumst í evrópskri einangrunarhyggju.