Könnun á áhrifum fiskmarkaða

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 16:09:43 (4765)

2001-02-19 16:09:43# 126. lþ. 72.11 fundur 243. mál: #A könnun á áhrifum fiskmarkaða# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um könnun á áhrifum fiskmarkaða tekur til allmargra atriða þar sem er einmitt óskað eftir að kannað sé hvaða áhrif fiskmarkaðirnir hafa.

Ég vil aðeins gera að umtalsefni afmarkaðan þátt sem hér er hreyft. Ég vil einmitt ræða um mikilvægi þess að fiskur sem berst á land, komi á markað hér á landi með þeim hætti að innlendir aðilar eigi kost á að ná til hans til vinnslu hér. Sá háttur sem er á að hægt er að flytja hluta af aflanum, sem kemur hér á land beint á markaði erlendis, setja hann í gáma óunninn og flytja hann beint á markað erlendis, án þess að innlendir aðilar geti komist að honum, nema þá á mörkuðum erlendis, til að ná í hann til vinnslu, er náttúrlega algjörlega óviðunandi. Þær aðgerðir sem hæstv. sjútvrh. beitti sér fyrir í upphafi ferils síns við upphaf síðustu ríkisstjórnar um að lækka gjald á útfluttan gámafisk til að gera þann útflutning greiðari voru í sjálfu sér alls ekki til bóta hér.

Afar mikilvægt er að þær reglur séu settar að innlendir aðilar geti boðið í þennan fisk til jafns við aðra eða eignast hann eða komist yfir hann til vinnslu. Hafi útlendingar áhuga á að fá þennan fisk til vinnslu, geta þeir alveg eins boðið í hann á mörkuðum hér og flutt hann þá út til vinnslu sinnar erlendis í eðlilegri samkeppni við innlenda aðila eða fengið innlenda aðila til að vinna hann fyrir sig, eftir því sem verkast vill.

Ég vil draga þetta, herra forseti, mjög skýrt fram hér, vegna þess að ég tel að þetta sé að mínu viti einn veikasti hlekkurinn í því að hvernig fiskur kemur til nýtingar innan lands. Það að setja upp markaði fyrir fisk án þess að það sé þá á neinn hátt skilyrði að allur fiskur sem fer ekki til eigin vinnslu komi á slíka markaði finnst mér vera algjörlega frumskilyrði til að fiskmarkaðir geti í rauninni þjónað því hlutverki sem þeim var ætlað, þ.e. að skapa jöfnuð og möguleika og eðlilega samkeppni innan lands til þess fisks sem Íslendingar veiða og landa hér.

Það er eins og hér hefur ítarlega verið minnst á og rætt mjög mikil nauðsyn á að bæði fiskvinnslan og sveitarfélögin, aðilar í landi, geti eignast og átt þannig rétt á veiðiheimildum og forgangi til aflans eða samið um það með einum eða öðrum hætti á sínum forsendum, en það sem lýtur að fiskmörkuðunum sjálfum er að það er algerlega óviðunandi að aðeins hluti af fiski sem veiddur er þurfi að koma á markað en hluti geti farið úr landi. Margar fiskvinnslur vítt og breitt um landið sem ekki eiga aðgang að fiski með öðrum hætti en að kaupa hann á mörkuðum eru þar með afar illa settar í öryggi og samkeppni um þann fisk sem við veiðum.

Herra forseti. Ég vil draga þetta fram hér, leggja áherslu á að það er afar óeðlilegt að fiskur sé fluttur út óunninn í gámum á fiskmarkaði erlendis án þess að innlendir aðilar hafi átt tök á því að koma þar að og bjóða í til vinnslu innan lands.