Könnun á áhrifum fiskmarkaða

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 16:23:11 (4770)

2001-02-19 16:23:11# 126. lþ. 72.11 fundur 243. mál: #A könnun á áhrifum fiskmarkaða# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[16:23]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér ræðum við þáltill. um könnun á áhrifum fiskmarkaða sem ég tel hið besta mál að lagt skuli fram enda ekki vanþörf á að kortleggja þessi mál og ræða þau.

Eitt vil ég þó taka fram í upphafi þessa máls svo það valdi ekki misskilningi. Iðulega er sagt og það stendur m.a. hér í grg. efst á bls. 2: ,,Krafan um allan fisk á markað er meginkrafa allra samtaka sjómanna í dag.``

Ég er viss um að sjómenn hefðu ekkert á móti því að fiskurinn færi á markað og væri seldur þar. Hins vegar er ekki rétt að segja þetta svona vegna þess að meginkrafa sjómanna er að verðmyndun fisks sé tengd við markað þannig að þær forsendur sem hin eðlilega verðmyndun sem markaðurinn gefur komi beint inn í þau fiskviðskipti sem ekki eru gerð á markaði. Krafan hefur verið um að fiskurinn skuli verðmetin með hliðsjón af markaðsverðinu. Þannig er kannski ekki hægt að segja þetta nákvæmlega svona, að krafan sé að allur fiskur skuli fara á markað. Þó er ég alveg viss um að sjómenn mundu ekki hafna því ef upp á það væri boðið. Hins vegar er fjarri því að upp á það hafi verið boðið á undanförnum árum. Um það hafa hinar miklu deilur milli sjómanna og útgerðarmanna og sjómanna og fiskvinnslunnar í raun og veru staðið lengi, að verðmyndunin hefur verið öll á skakk og skjön.

Þeir eru kallaðir kvótabraskarar sem leigja til sín fisk á 95 kr., sem er hér um bil verðið á þorskinum í dag, og draga það frá sölu á markaði, þó að það gefi sjómönnum stundum upp undir 200 kr. á markaðnum að selja fiskinn þar, þ.e. sem uppgjörsverð, sé þetta dregið frá eins og stundum er gert þá er hlutaskiptaverðið rúmlega 100 kr., þ.e. sem sjómenn fá skipt úr.

Þetta höfum við kallað kvótabrask. Þetta er ólöglegt en þetta er nú samt sem áður gert. Því er síðan haldið fram að þeir séu ekki kvótabraskarar sem fari í gegnum svokallaða Verðlagsstofu skiptaverðs eða í úrskurðarnefnd og fá þar verð, þó að verðið sé þar 80 eða 90 kr. fyrir sama þorsk. Þeir teljast ekki kvótabraskarar. Í þessu sambandi má nefna virðuleg fyrirtæki, stærstu fyrirtæki hér á landi eins og t.d. í Reykjavík, Granda, sem borgar sennilega innan við 100 kr. fyrir þorsk að jafnaði, fyrirtæki á Vestfjörðum sem borga 82--85 kr. fyrir þorsk, Útgerðarfélag Akureyringa sem borgar sennilega innan við 100 kr. fyrir þorsk og þannig mætti lengi telja.

Niðurstaðan er sem sagt að í gegnum hið þvingaða fiskverð er seldur fiskur á innan við 100 kr. og það kallast löglegt. Það telst löglegt þó að viðskiptaumhverfið og hinn frjálsi markaður fiskverðsmyndunar gefi fyrir sams konar fisk 130--200 kr. fyrir kílóið, jafnvel meira fyrir stærsta fiskinn. Þannig er málum komið í dag og m.a. um þetta hafa kjaradeilur sjómanna snúist á undanförnum árum, þeir hafa viljað fá verðmyndun sem taki mið af markaðsverðinu. Ég ítreka enn að þeir hefðu vafalaust ekkert á móti því að fiskurinn fari um markað og sé seldur þar en krafan hefur verið sú að verðmyndunin taki mið af markaðnum eða markaðsverði.

Það er eðlilegt að sú krafa sé sett fram. Hún þjónar ekki bara hagsmunum sjómanna. Ég lít svo á að ef fiskur væri hér almennt seldur á fiskmarkaði þá mundum við gera íslenskri þjóð mikið gagn. Við mundum örugglega auka verðmæti aflans, ekki bara úr sjó heldur líka frá vinnslu. Það verð sem nú er á fiskmarkaðnum, sem er kannski oft í hærri kantinum vegna þess hve magnið er lítið, væri þá kannski e.t.v. ekki jafnhátt og vegna þess að það vantar yfirleitt fisk á fiskmarkaðina.

Einnig má spyrja hvort það sé eðlilegt að menn geti notað kvótaréttinn, þ.e. aflaúthlutunina, í beinum viðskiptum með fisk eins og gert er. Ég svara því fyrir mig að mér finnst það gjörsamlega óásættanlegt að stjórnkerfi fiskveiða sé þannig úr garði gert að þeir sem hafi veiðiréttinn, fá úthlutun, geti notað sér þær heimildir til þess að halda niðri verðmyndun til sjómanna og stýra viðskiptum.

Þess vegna er sjálfsagt, sem stjórnarandstaðan hér á þingi hefur sett fram hugmyndir um, að kvótakerfið breytist, að kvótinn verði innkallaður og fari til útgerðarmanna eftir öðrum leiðum en þeirri sjálfvirku aflaúthlutun og aflakvótaúthlutun, þ.e. hlutdeildarkerfinu, eins og er í dag. Auðvitað má segja að áherslur séu mismunandi eftir flokkum en að meginstefnan sé samt sú hjá stjórnarandstöðunni allri að núverandi kvótaúthlutunarkerfi sé óeðlilegt og leiði af sér margt óeðlilegt, m.a. óeðlilega verðmyndun á fiski.

Að öðru leyti vil ég sérstaklega mæla með þessari tillögu. Ég tel að hún sé til mikilla bóta og vona að hún verði vel unnin og leiði í ljós það sem nægar upplýsingar eru til um, m.a. í skýrslu Samtaka fiskvinnslustöðva án útgerða, í skýrslu sem unnin var um Kvótaþing, Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. Það er mikið til af upplýsingum og það kerfi sem við búum við í dag á ekki að fá að halda áfram óbreytt.