Könnun á áhrifum fiskmarkaða

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 16:45:16 (4775)

2001-02-19 16:45:16# 126. lþ. 72.11 fundur 243. mál: #A könnun á áhrifum fiskmarkaða# þál., Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[16:45]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég held að það sé við hæfi af því ég er 1. flm. þessa máls að ég taki þessa umræðu aðeins saman í lokin. Hún hefur að mörgu leyti verið mjög góð og það er á mönnum að heyra að þeim finnist tímabært og það kannski fyrir löngu að þetta starfsumhverfi sjávarútvegsins sem lýtur að því hvernig menn selja aflann, hverjir hafi aðgang að því að kaupa hann og þar af leiðandi starfsumhverfi fiskvinnslunnar í landinu, sé skoðað, að menn beri saman þá þætti sem þarna eru taldir upp.

Og vegna orða hv. þm. Guðjóns Arnar Kristjánssonar um það sem stendur efst á bls. 2 þá er inngangurinn að þeirri upptalningu sá að ég hef tekið saman þau ummæli sem hafa fallið eða þær staðhæfingar sem hafa verið settar fram í umræðunni um fiskmarkaði hér í þinginu, í þessum tveimur umræðum sem ég hef stofnað til. Ég tók saman þær staðhæfingar sem menn settu fram og listaði þær mjög samviskulega inn í greinargerðina. Og þetta var ein af þeim og ein af þeim sem talin var mæla með fiskmörkuðum og það fannst mér líka á hv. þm. að hann hefði mikinn skilning á. Á sínum tíma var þetta meginkrafan. Ég geri mér ljóst að áherslur sjómanna í kjarasamningum þeirra taka að sjálfsögðu mið af því sem þeir eru að reyna að ná fram hverju sinni. Þær eru aðeins aðrar í dag. En í framsögu minni ræddi ég fyrst og fremst um verðmyndunarmálin af því ég veit að þannig vilja menn tala um þessi mál nú.

Það er alveg ljóst að þegar við erum að tala um fiskmarkaði þá eigum við ekki við fiskveiðistjórnarkerfið. Fiskveiðistjórnarkerfið er alveg sjálfstætt mál. Síðan er það líka sjálfstætt mál sem menn þurfa að taka afstöðu til hvaða úthlutunaraðferðir við viljum hafa þegar úthlutað er veiðiheimildum. Og þá erum við komin að efni þess máls sem hér er til umfjöllunar, þ.e. hvernig viljum við síðan að háttað sé samskiptum þeirra sem veiða og þeirra sem verka þann afla sem að landi kemur.

Ég gat þess í lok framsöguræðu minnar áðan að fróðlegt væri að líta til þess hvernig menn ætla sér að hafa raforkumálin. Við þingmenn eigum von á því á hv. Alþingi á næstu dögum að hér komi inn frv. til nýrra raforkulaga. Það sem við vitum um efni þess frv., og þar með um það hvernig menn sjá fyrir sér nýtingu þeirrar sameiginlegu auðlindar sem er orkan, er að þar vilja menn skilja á milli þáttanna, a.m.k fjárhagslega ef ekki algerlega, þannig að það sé alveg ljóst að samkeppni ríki í viðskiptum og að það sé alveg ljóst að viðskipti þeirra sem framleiða orku og þeirra sem dreifa henni séu uppi á borðinu og að menn geti treyst því að allar samkeppnisforsendur séu í lagi. Þarna ætla menn sem sé að fara leið sem ekki hefur verið talin fær að því er virðist í máli allt of margra þegar um er að ræða sjávarauðlindina. Þar hafa menn viljað halda línunni óskertri frá því að veiðiréttinum er úthlutað og þar til að varan er nánast komin á markað, að sömu aðilar megi þar véla um án nokkurrar samkeppni nánast allan ferilinn.

Auðvitað hefur þetta verið gagnrýnt, herra forseti, vegna þess að þarna erum við að skapa mismunun sem er óþolandi. Í þessari umræðu hafa menn auðvitað tiltekið þá fiskvinnslu sem annars vegar er hluti af fyrirtæki sem líka rekur útgerð, þar sem menn versla á milli vasa, eins og það var orðað hér, og hins vegar fiskvinnslu þar sem menn hafa ekki gripið til þess að fara líka í það að vera með útgerð heldur hafa sérhæft sig á því sviði sem þeir eru hugsanlega bestir á og verða síðan að kaupa allan sinn afla á markaði. Auðvitað er þarna um gjörólíkar aðstæður aðila að ræða sem vinna þó í sömu atvinnugrein, þ.e. að verka fisk fyrir kröfuharða markaði erlendis.

Herra forseti. Af því að hér var líka vikið að fjarskiptunum áðan og hv. þm. Jóhann Ársælsson fór aðeins yfir það hversu ströng samkeppnisyfirvöld hafa verið, þ.e. að í þeim efnum væri skilið á milli þátta, þá getum við líka horft til þess þegar við veltum fyrir okkur starfsumhverfi og skipulagi í sjávarútvegi.

Vegna þess að ég er að fitja hér upp á því hvað talið er ákjósanlegt af þeim stjórnvöldum sem nú ráða þegar um er að ræða raforkuvinnslu, raforkuflutning og -sölu, þá er einmitt fróðlegt að velta fyrir sér og skoða hvernig þessir hlutir eru orðaðir í skýrslunni um framtíðarskipulag orkuflutnings á Íslandi. Það er skýrsla sem iðn.- og viðskrn. gaf út í febrúar á sl. ári. Hún er sem sagt ársgömul. Þar segja menn að skipulagi raforkumála hafi verið umbylt í flestum nágrannalanda okkar með það í huga að auka samkeppni og búa þessum mikilvæga þjóðfélagsþætti eðlileg viðskipta- og starfsskilyrði. Þetta er nákvæmlega það sem við viljum gera í sjávarútveginum, herra forseti.

Til þess að þetta megi gerast vilja þeir sem skrifa þessa skýrslu tryggja jafnræði milli fyrirtækja sem stunda vinnslu, flutning, dreifingu eða sölu raforku og að þau þurfi að búa við sömu starfsskilyrði óháð eignarhaldi. Þetta er líka, herra forseti, það sem við viljum gjarnan sjá í íslenskum sjávarútvegi.

Hér segir að forsenda samkeppni í raforkumálum sé aðskilnaður vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu. Enn á ný tek ég undir. Við viljum gjarnan sjá þessa þróun þegar íslenskur sjávarútvegur er annars vegar vegna þess að það er ekki bara í orkunni sem má ætla að fyrirkomulag sem býður upp á þá þætti sem hér er talað um geti skapað sem mestan þjóðhagslegan arð og þar með sem mestan arð fyrir fólkið í landinu. Þetta er líka svona að sjálfsögðu þegar kemur að sjávarútvegi.

Það er líka athyglisvert, herra forseti, að nefndin segir hér að tveir möguleikar séu gefnir samkvæmt þeirri tilskipun frá Evrópusambandinu sem unnið hefur verið eftir hvað varðar leyfisveitingar til raforkuvinnslu, annars vegar útboðsleiðin og hins vegar leyfisveiting samkvæmt fyrir fram ákveðnum og skýrum skilyrðum. Þetta er nú svona eins og teiknað upp úr skýrslu auðlindanefndar hvað varðar þessi mál.

En menn leggja áherslu á gegnsæi og hlutlægni. Menn leggja áherslu á samkeppni, á það að þeir standi jafnir, búi við sömu aðstæður, þ.e. þeir sem eru að vinna á sömu mörkuðum og að sömu málum. Og um það hygg ég að þeir sem styðja þá tillögu sem hér er til umfjöllunar geti allir verið sammála.

Auðvitað hljótum við að gera kröfu til þess að það verði ákveðinn virðisauki í fiskvinnslu, að fiskvinnslan skapi meiri verðmæti en menn fá út úr því að flytja fiskinn algjörlega óunninn á erlenda markaði. Ef svo er ekki þá er íslensk fiskvinnsla auðvitað í mikilli hættu og hún hefur verið það að mörgu leyti. Fiskvinnsla sem ekki getur borgað nema það lága verð sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson rakti áðan hlýtur að vera í mikilli hættu gagnvart útflutningi á óunnu hráefni. Þess vegna er svo mikilvægt að íslensk fiskvinnsla hafi aðgang að hráefni, hafi aðgengi til þess að þróa sig áfram með þeim hætti sem hér hefur áður verið lýst, eins og gerst hefur í þeim fyrirtækjum sem vinna í þessari nánu snertingu við markaðinn, eru jafnvel að kaupa hráefni eins og hv. þm. Kristján Pálsson rakti hér áðan, nánast í beinu samhengi við þá markaði sem þau vinna fyrir. Þannig hafa fyrirtækin verið að fá til muna hærra verð en áður hafði þekkst fyrir unnar afurðir í íslenskri fiskvinnslu. Og auðvitað viljum við stefna að þessu.

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram að fiskmarkaðir séu byggðamál vegna þess að þó svo að skip sé selt úr byggðarlagi og þar með fari kvóti í burtu þá séu ekki öll sund lokuð fyrir þeirri fiskvinnslu sem á áfram aðgang að fiskmörkuðum. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn skoði þá þætti sem hér eru raktir og lúta að möguleikum fiskvinnslunnar, að aðgengi hennar að hráefni, lúta að möguleikum á nýliðun í fiskvinnslu. Það er ekki bara spurning um að fleiri geti komist að til þess að róa, til þess að gera út. Það skiptir líka máli að menn með ferskar hugmyndir, með nýjar hugmyndir, með viðskiptahugmyndir sem gefa vonir um góðan arð, geti komist að til þess að reyna, til þess að sýna fram á, til þess að skapa samkeppni, til þess að treysta íslenska fiskvinnslu í þeirri samkeppni sem hún á sannarlega í við erlenda fiskmarkaði og þá við fiskvinnslu annars staðar. Einnig er nauðsynlegt, herra forseti, að skoða vandlega hvaða áhrif fiskmarkaðir hafa haft í stöðugleika í fiskvinnslu og á byggðaþróun.

Það vakti athygli mína og ugglaust fleiri þegar Útvegurinn, sem er rit LÍÚ, kom út nú síðast þá sáu þeir ástæðu til þess að leggja blaðið nánast allt undir upphrópanir og reifun þess efnis að ef afli færi allur um fiskmarkað yrði það rothögg á fiskvinnsluna í landinu. Mér þótti þetta afar athyglisvert vegna þess að þetta veitir í rauninni innsýn inn í þá þekkingu á íslenskum sjávarútvegi og ég tala nú ekki um fiskvinnslu sem greinilega er til staðar á ritstjórn þessa blaðs og hún er býsna fátækleg, eiginlega sorglega fátækleg vegna þess að hér í dag hafa menn verið að nefna fyrirtæki og möguleika þar sem menn hafa engan afla nema þann sem þeir kaupa á fiskmörkuðum. Það er býsna stór hópur íslensks fiskvinnslufólks sem vinnur í fyrirtækjum sem þurfa alfarið að reiða sig á afla sem keyptur er á fiskmörkuðum. Eins og hér hefur komið fram í máli mínu og annarra þá hafa þessi fyrirtæki verið að vinna afskaplega dýrmætt brauðryðjendastarf. Þau hafa togað aðra fiskvinnslu í landinu áfram til þeirrar nýbreytni sem ein getur bjargað íslenskri fiskvinnslu frá því beinlínis að deyja út, af því hún hefði þá ekki ella orðið samkeppnisfær.

Að leyfa sér að afgreiða allt þetta starf út af borðinu eins og gert er í þessu blaði er með eindæmum og sýnir hversu mikla einsýni menn eru tilbúnir til að viðhafa á þeim bæ ef það mætti verða til að koma höggi á þá kröfu sjómanna að verðmyndun á afla verði öðruvísi en verið hefur fram til þessa og menn hafa vísað í annaðhvort fiskmarkaði eða viðmið í fiskmarkaðsverð.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég tel að það sem skiptir máli í þessari umræðu hafi flest komið fram. Ég vænti þess að tillagan njóti í nefnd þess víðtæka stuðnings sem hún hefur fengið í þingsalnum þannig að við fáum þessa könnun gerða og að niðurstaða hennar verði til þess að hjálpa þeim sem þurfa að taka ákvörðun um starfsumhverfi sjávarútvegsins í þeim vandasömu ákvörðunum sínum.