Umboðsmaður neytenda

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 17:10:05 (4777)

2001-02-19 17:10:05# 126. lþ. 72.23 fundur 442. mál: #A umboðsmaður neytenda# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[17:10]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. þm. fyrir að kynna þessa tillögu sem ég er reyndar einn af flutningsmönnum að. Hv. þm. er afar vel að sér í neytendamálum og ég tel að hér sé um afar góða og reyndar snjalla þáltill. að ræða.

Hún felur í sér m.a. að neytendur geti leitað til óháðs aðila komi til ágreinings um viðskipti og verslun. Tillagan felur m.a. í sér í fyrsta lagi að gæta hagsmuna neytenda og að farið sé eftir gildandi leikreglum þannig að eðlilegar leikreglur ríki á markaðnum. Í öðru lagi er talað um að settar verði almennar viðmiðunarreglur í viðskiptum. Í þriðja lagi að jafna ágreining neytenda og hagsmunaaðila og svo í fjórða og síðasta lagi að umboðsmaður fari með mál neytenda fyrir dómstól þurfi til þess að koma.

Lengi hafa verið talsverðar deilur um Neytendasamtökin á Íslandi einhverra hluta vegna. Í mörgum tilfellum er þar um ákveðinn klaufaskap að ræða vil ég meina, einstrengingslega afstöðu ákveðinna manna sem hafa hleypt illu blóði í neytendamál á Íslandi og það er mjög slæmt. Í neytendamálum höfum við náð mun skemmra en t.d. frændur okkar í nágrannalöndunum.

Það er mjög nauðsynlegt að vekja neytendur til meðvitundar um ýmsa hluti og eitt af því sem ég hef mjög gjarnan rætt um er að velta fyrir sér verðmyndun vöru, hvernig verðið er til komið. Við búum því miður á Íslandi við fákeppni á matvörumarkaði. Gömlu góðu kaupmennirnir sem einu sinni voru eru nánast ekki til. Vonandi eiga þeir eftir að koma aftur því það er nú eins og allir þessir hlutir komi aftur og aftur. Allt fer í hring. En núna búum við við gríðarlega fákeppni í viðskiptum og verslun, sérstaklega þó á matvörumarkaði. Þess vegna er nauðsynlegt að velta fyrir sér hvernig verð vörunnar verður til. Í hinum tölvuvædda heimi er ekkert mjög mikið mál að merkja vöruna þannig að við sjáum hvað t.d. framleiðandinn fær fyrir vöruna sína, hvað milliliðir fá eða birgjar eins og þeir eru stundum kallaðir, hvað ríkið fær í formi virðisaukaskatts og hvað síðan seljandi vörunnar fær í sinn hlut, þ.e. kaupmaðurinn eða verslunarkeðjan. Þá sjáum við fyrst hverjir eru raunverulegir vinir neytenda.

Ég er alveg viss um að í mjög mörgum tilfellum skila afslættir sem þessar verslunarkeðjur fá sér alls ekki til neytenda. Ég veit t.d. um eina vöru. Tveir aðilar framleiða þessa vöru á Íslandi. Ákveðin verslunarkeðja henti út vöru annars framleiðandans þannig að þá var bara um einn framleiðanda að ræða. Við það hækkaði varan um 6%. Það þarf enginn að segja mér að þessi ákveðna verslunarkeðja hafi ekki fengið verulega afslætti fyrir að henda út hinum samkeppnisaðilanum. Þetta er mjög óeðlilegt en getur verið erfitt að fást við.

Innihaldslýsingum er líka mjög ábótavant á Íslandi. Hvað erum við í raun að borða og hvaðan kemur varan? Upprunavottorð vantar í mjög mörgum tilfellum. Þetta eru hlutir og hugtök sem nauðsynlegt er að við förum að vinna miklu meira með en við gerum. Við erum tilbúin að kaupa vöru. Við erum t.d. tilbúin að kaupa föt í alls konar merkjum og við borgum fyrir þessi merki dýrum dómum. Við kaupum okkur bíla. Þeir heita einhverjum ákveðnum nöfnum, vörumerkjum, og við erum tilbúin að borga fyrir merkin í þeim efnum. Sama er með heimilistæki, hljómflutningsgræjur og ýmislegt fleira.

En þegar kemur að matvörunni þá horfum við oft og tíðum bara á verðmiðann, þ.e. fyrir hvað við erum að borga og þá erum við oft ekki að bera saman sambærilegar vörur. Þetta eru atriði sem mér finnst mjög brýnt að tekið sé á hér á Íslandi vegna þess m.a. að við búum því miður í fákeppnislandi.

Ég endurtek að mér finnst þetta mjög merkileg þáltill. Eins og hv. 1. flm. hennar sagði tekur þetta allt sinn tíma. Neytendasamtökin hafa verið til þess að gera veik á Íslandi. Neytendasamtökin hafa spilað ranga pólitík að mínu mati. Að vísu finnst mér eins og þeir séu aðeins að átta sig á hlutunum núna. Oft hefur verið talað um innflutning á matvöru og mjög keppst við að reyna að koma hér inn innfluttri matvöru. Aftur á móti núna eftir áramótin finnst mér eins og Neytendasamtökin hafi snúið blaðinu við í þessum efnum og undirstrikað gæði þeirrar matvöru sem framleidd er á Íslandi og það er nú eitt af því sem við getum verið býsna ánægð með, þ.e. hreinleika landbúnaðarafurða, hreinleika fiskafurða o.fl. sem við getum unnið miklu meira og betur en við gerum. Ég er þess fullviss að við getum flutt út t.d. meira af íslensku lambakjöti ef við beitum réttum aðferðum þar að lútandi. Ég hef gjarnan sagt að fáir geta í raun unnið betur í þeim efnum en íslenskir matreiðslumeistarar og íslenskir kjötiðnaðarmenn.

Ég fagna þessari þáltill. og ég vona að hún fái brautargengi, ef ekki á þessu þingi, þá síðar.