Notkun úranhúðaðra sprengiodda í loftárásum NATO á Júgóslavíu

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 13:40:58 (4899)

2001-02-21 13:40:58# 126. lþ. 75.4 fundur 386. mál: #A notkun úranhúðaðra sprengiodda í loftárásum NATO á Júgóslavíu# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[13:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrstu spurningunni vil ég taka fram að ríkisstjórnin samþykkti fyrir sitt leyti eins og vitað er aðgerðir Atlantshafsbandalagsins gagnvart sambandslýðveldinu Júgóslavíu vorið 1999 í því augnamiði að bjarga mannslífum og koma í veg fyrir frekari blóðsúthellingar og eyðileggingu sem stjórn Milosevic forseta hafði staðið að gagnvart óbreyttum borgurum í Kosovo. Atlantshafsráðið þar sem Ísland á sæti ákvað að fela hermálayfirvöldum að framkvæma aðgerðirnar. Í fyrirmælum til hermálayfirvalda var tekið fram m.a. að koma skyldi í veg fyrir tjón á lífi og eignum óbreyttra borgara eftir því sem kostur væri. Enn fremur var gengið út frá því að aðgerðir og vopnavald tækju mið af aðstæðum og væri í samræmi við alþjóðalög. Atlantshafsráðið hefur að jafnaði ekki bein afskipti af því hvernig eða hvaða hefðbundnum tækjum og búnaði er beitt í einstökum aðgerðum bandalagsins frá degi til dags. Hefðu aðildarríkin haft ástæðu til að ætla að liðsveitum þeirra eða óbreyttum borgurum stafaði heilsufarsleg ógn af einstökum vopnum hefði notkun slíkra vopna án efa verið stöðvuð. Engar slíkar vísbendingar höfðu komið fram um það leyti sem aðgerðirnar voru ákveðnar frekar en nú og hefur athygli íslenskra stjórnvalda því ekki verið vakin sérstaklega á notkun sprengna með sneyddu úrani.

Að því er varðar spurningu tvö. Í samráði aðildarríkjanna á vettvangi bandalagsins í Brussel hefur fastafulltrúi Íslands lagt áherslu á að allar tiltækar upplýsingar um málið yrðu teknar saman og þeim komið á framfæri við almenning í aðildarríkjunum hið fyrsta. Að auki hefur Ísland tekið fullan þátt í að móta sameiginleg viðbrögð bandalagsins við fréttaflutningi fjölmiðla. Framkvæmdastjóri fyrir hönd aðildarríkja hefur þannig lýst fullum vilja bandalagsins til samstarfs við viðeigandi rannsóknaraðila og alþjóðastofnanir, þar á meðal Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna sem byggt yrði á vísindalegum staðreyndum. Bandalagið hafði frumkvæði að því að kalla saman nefnd yfirlækna í herjum aðildarríkjanna og setti á fót sérstakan starfshóp til þess að skiptast á upplýsingum um hugsanleg tengsl notkunar á sneyddu úrani og heilsutjóns í liðsveitum bandalagsins á Balkanskaga. Staðfest hefur verið að engin slík tengsl hafi komið í ljós þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir.

Óháðir aðilar, þar á meðal rannsóknarnefnd á vegum Umhverfisstofnunarinnar í samvinnu við m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina hafa komist að sömu bráðabirgðaniðurstöðu en endanlegrar skýrslu er að vænta í næsta mánuði.

Að því er varðar spurningu þrjú. Íslensk stjórnvöld hafa viljað stuðla að því að alþjóðlegir samningar um bann við ákveðnum tegundum vopna yrðu virtir í hvívetna, þar á meðal bann við sýkla- og eiturvopnum og efnavopnum. Fagna ber að skorður hafi verið settar við beitingu vopna sem valdið geta ómannúðlegum þjáningum og stórt skref stigið í átt til banns við jarðsprengjum sem beint er gegn fólki. Á alþjóðlegum vettvangi hafa ekki komið fram tillögur um bann við sneyddu úrani í sprengjum sem beitt er gegn hernaði. Einstök ríki hafa mælst til þess að látið yrði af notkun sneydds úrans í sprengjum tímabundið í varúðarskyni og Evrópuþingið samþykkti ályktun sama efnis hinn 17. janúar sl. Aðalsaksóknari Alþjóðastríðsglæpadómstólsins fyrir fyrrv. Júgóslavíu, Carla del Ponte, hefur lýst því yfir að ekki sé bannað samkvæmt alþjóðalögum að nota sprengjur með sneyddu úrani.

Engar aðgerðir standa nú yfir á vegum Atlantshafsbandalagsins sem útheimt gætu notkun sprengna með sneyddu úrani. Íslensk stjórnvöld líta svo á að halda beri áfram rannsóknum á hvort tengsl kunni að vera milli einstakra efna sem notuð eru í vígbúnaði og heilbrigðisáhættu og haga beri ákvörðun um beitingu tiltekinna vopna í ljósi bestu hlutlægra upplýsinga sem fyrir liggja. Ef skaðleg geislavirkni stafar af sneyddu úrani finnst mér sjálfsagt að kanna það.

Ég vona að þessi svör séu fullnægjandi fyrir hv. þm.