Orkukostnaður

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:01:02 (4906)

2001-02-21 14:01:02# 126. lþ. 75.5 fundur 202. mál: #A orkukostnaður# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. ráðherra fyrir afar fróðlegt og greinargott svar við spurningum sem voru sannarlega býsna viðurhlutamiklar og ekki kannski auðvelt að svara þeim á svo skömmum tíma. En það sem þessi svör hafa leitt í ljós er að þetta er býsna alvarleg staða fyrir fáein býli í landinu. Fram kom að um 45 býli væru í þeirri stöðu sem við höfum verið að ræða, þar af a.m.k. 20 í ábúð og 25 í eyði sem gæti þýtt samt sem áður einhverja hlutabúsetu á ári hverju, þannig að ljóst er að hér er um að ræða dálítinn hóp, ekki mjög stóran, sem býr við gríðarlega mikinn orkukostnað eins og málum er háttað núna. Þetta hefur gerst á mjög skömmum tíma eins og ég vakti athygli á og þess vegna kannski ekki óeðlilegt að einhvern tíma taki að finna leiðir til að bregðast við þessu.

Ég fagna því og þakka hæstv. iðnrh. fyrir að bregðast við þessu máli með þeim hætti að fela nefnd á vegum ráðuneytisins að fara ofan í þessi mál. Mér er ljóst að það er ekki einfalt hvernig beri að bregðast við þessu. Við megum ekki gera það á þann hátt að það hvetji beinlínis til notkunar á dísilolíu og hverfa þannig frá rafmagnshitun t.d. Við verðum að gera það með því móti að það stuðli frekar að því að við nýtum innlenda orkugjafa. Engu að síður er hér um að ræða svo íþyngjandi aðstöðu fyrir tiltölulega lítinn hóp sem mér býður í grun að geti oft og tíðum líka verið fremur tekjulágur hópur þó ég vilji ekki fullyrða það altækt. Engu að síður er ljóst að hér er um að ræða býsna mikið mál fyrir þennan hóp sem er sjálfsagt að samfélagið komi til móts við með einhverjum hætti.

Ég vil vekja athygli á því að fram kom í máli hæstv. ráðherra að meðalorkukostnaður á Rarik-svæðinu væri um 80 þús. kr. og þá er ég að tala um húshitunina á ári miðað við tiltekna gefna forsendu, mismunandi eftir stærð húsa o.s.frv. En ef um er að ræða fólk sem þarf að nýta sér olíu til húshitunar, þá er hér um að ræða kostnað upp á 222 þús. kr., nærri þrefaldan þann kostnað sem er á Rarik-svæðinu sem gefur til kynna enn þá meiri mun milli hitaveitusvæðanna og þeirra örfáu sem búa við þessi ósköp sem olíuverðshækkunin hefur haft í för með sér fyrir það fólk sem kyndir hús sín með olíu.