Viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:12:18 (4930)

2001-02-26 15:12:18# 126. lþ. 76.1 fundur 321#B viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Út af fyrir sig er alltaf dálítið sérkennilegt að heyra hv. fyrrv. þingmenn Alþfl. og núverandi þingmenn Samfylkingar tala eins og ekki sé til neitt sem heitir Evrópskt efnahagssvæði og eins og við höfum ekki undirgengist neitt í því sambandi því það voru þeir sem ráku það mál þegar sú ákvörðun var tekin. Auðvitað erum við bundin ... (Gripið fram í.) Nei, ég ætla ekki að segja þessu upp. Ég er bara að halda til haga ákveðnum atriðum. Auðvitað erum við bundin af ýmsum samningum og hvað varðar Pólland þá er það fríverslunarsamningur. Við þurfum náttúrlega að gæta okkur að ákveðnu marki. En það sem ég vil halda til haga er að það er ýmislegt hægt innan þeirra marka og innan þeirra reglna sem við þurfum að vinna eftir. Þegar hv. þm. talar um óvilhalla aðila verðum við að gera okkur grein fyrir því að Ríkiskaup fara þarna með ákveðið hlutverk fyrir hönd ríkisins og það er erfitt að hunsa það sem þeir segja.