Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 17:06:42 (4964)

2001-02-26 17:06:42# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[17:06]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. 3. þm. Norðurl. e. var að mestu leyti um Schengen-samninginn og er ekkert við því að segja því að málið tengist honum. Það er eitt sem ég vil undirstrika sem mér finnst að sé byggt á nokkrum misskilningi, ef ég skil hv. ræðumann rétt, að ég hef aldrei litið svo á að Schengen-samningurinn leysi fólk undan því að fá sér vegabréf eða sýna persónuskilríki ef eftir því er leitað. Mér finnst sá hluti ræðu hans sem fjallaði um norræna vegabréfasambandið og tilraun og áform Norðurlandanna um að koma upp nýjum persónuskilríkjum á nokkrum misskilningi byggður. Ég held að það hafi verið gegnumgangandi regla þegar ferðast var til Norðurlandanna, þó að frjáls för væri á milli þjóðanna, að menn höfðu með sér vegabréf og það breytist ekki.

Hins vegar erum við að gerast aðilar að frjálsri för og við erum að gerast aðilar að samstarfi Evrópuríkja á því sviði, hluta af Evrópusambandinu, það er alveg rétt, og það hefur ekkert með það að gera hvort menn eru að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Þetta mál er allt annars eðlis.