Umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 13:51:14 (5048)

2001-02-28 13:51:14# 126. lþ. 78.92 fundur 336#B umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það lýsir í sjálfu sér ákveðnu hugarfari hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich að hann undrist að þegar nefndarmenn óska eftir því að mál sé tekið upp í nefnd þá skuli þeir bara ekki spyrja ráðherra. Það lýsir ákveðnu hugarfari, herra forseti.

Ég verð líka að lýsa yfir undrun minni á því að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður hv. menntmn. og þingflokksformaður Sjálfstfl., skuli lýsa þessu erindi hv. nefndarmanna sem klögumáli til forseta. Það lýsir líka ákveðinni afstöðu til starfa hins háa Alþingis.

Ég vil í ljósi þessa segja að þessu erindi var komið til hæstv. forseta þar sem hann hefur í krafti embættis síns umsjón með starfi þingnefnda samkvæmt þingskapalögum. Við það ákvæði þingskapa verður hv. formaður menntmn. að una eins og aðrir hv. formenn nefnda í þinginu. Hún hlýtur hins vegar að vekja undrun, herra forseti, og kveikja spurningar hjá fólki, sú afstaða sem hv. nefndarmenn í menntmn. Alþingis, hv. nefndarmenn Sjálstfl., velja að taka í þessu máli. Í stað þess að taka þátt í lýðræðislegri umræðu um þetta umdeilda hitamál í sjálfri nefndinni þar sem um er að ræða túlkun á grein í grunnskólalögum, sem svo sannarlega telst á verksviði nefndarinnar, mikið hitamál sem deilur eru uppi um í samfélaginu, hvað er þá eðlilegra, herra forseti, en að hv. menntmn. taki málið til umræðu? Af hverju, herra forseti, var því hafnað að ræða um málið í nefndinni? Það þykir mér lýsa mjög undarlegri afstöðu hv. nefndarmanna Sjálfstfl.

Hins vegar hefur hæstv. forseti Alþingis kveðið upp úr um meðferð þessa máls og ekkert annað að gera en að una niðurstöðu hans. Ég lýsi á hinn bóginn yfir undrun minni á því hvernig hv. fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni líta á þetta mál.