Umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 13:53:20 (5049)

2001-02-28 13:53:20# 126. lþ. 78.92 fundur 336#B umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í bréfaskipti forseta við tvo tilgreinda hv. þm. úr menntmn. en um efni málsins vil ég segja: Ef mál af þessum toga eiga ekki heima í fagnefndum þingsins, hvaða mál eiga þá heima þar?

Við erum að ræða um túlkun framkvæmdarvaldsins, hæstv. menntmrh., á gildandi lögum í landinu. Það hefur verið dregið í efa að þessi túlkun hæstv. ráðherra eigi við rök að styðjast. Er það ekki eðlilegasti hlutur í heimi að fagnefnd hér í þinginu fari yfir þau mál og reyni að glöggva sig á stöðu þeirra mála? Ég spyr.

Herra forseti. Ég held að við þurfum ekki á neinum fyrirlestrum að halda á borð við þann sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich flutti, um þær leiðir sem hv. þm. hafa til þess að fara fram með sín mál. Um það er öllum kunnugt. En ég árétta og spyr á nýjan leik: Hvers vegna ekki menntmn.?

Ég vek athygli á því líka, herra forseti, að í umræðum um þetta mál, um form þess og efni, hafa fulltrúar Framsfl. ekki látið í sér heyra. Þeir hafa hins vegar lýst afstöðu til þessa álitamáls á opinberum vettvangi. Ég hlýt að álykta sem svo að eðlilegt sé að þeir hv. þm. sem vakið hafa máls á þessu álitamáli fari á nýjan leik með þetta inn í menntmn. og þá að fullskipaðri nefnd þar sem fulltrúar Framsfl. verði viðstaddir og þeir liðki fyrir málinu þannig að það fái þá faglegu umfjöllun sem málið á skilið.

Ég vil að lokum fagna því sem hér er greinilega almennur vilji fyrir, að frv. mitt og okkar stjórnarandstöðuþingmanna um hliðstætt mál, sem er þó formlega óskylt, fái hraða og góða afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Ég reikna með því að það verði tekið til umræðu og til efnislegrar umfjöllunar í menntmn. mjög fljótlega. Ég skil umræðuna þannig að þess sé krafist.