Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 11:40:29 (5120)

2001-03-01 11:40:29# 126. lþ. 80.5 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv. 7/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[11:40]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á fundi allshn. sóttum við það fast að fá frekari upplýsingar um hvernig þessi löggjöf yrði framkvæmd, þ.e. hvernig tekið er á móti þeim sem leita hælis á Íslandi. Í fyrsta lagi hefur hvergi komið fram hvaða möguleika þeir hafa á því að fá lögmenn. Ekkert hefur komið fram um hvaða aðstoðar þeir njóta þegar þeir koma hingað og hvaða leiðbeiningar þeir fá strax við komuna. Ekki hefur komið fram hvort þeim sé strax snúið við til þess lands sem þeir koma frá eða hvort þeir hafi einhver tækifæri, t.d. til þess að áfrýja þeirri ákvörðun að vísa því frá landinu. Ekkert af þessu kom fram í nefndinni.

Enn fremur var skilgreiningin á fyrsta hælislandi sú að langur vegur er frá því að við höfum fengið nákvæma útlistun á því. Virðulegi forseti. Ég mótmæli þessu harðlega. Á þessum forsendum treystum við okkur einfaldlega ekki til að standa að þessu því við viljum tryggja að þeir sem koma hingað og leita hælis fái málefnalega meðferð á umsögn sinni. Því miður er það svo að þrátt fyrir harða atrennu minni hlutans til að reyna að fá þessar upplýsingar og keyra í gegn breytingar í þessa veru var ekki hægt að verða við því. Í þessu ljósi, virðulegi forseti, ítreka ég að minni hlutinn treystir sér ekki til að bera ábyrgð á þessu lagafrv.