Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 11:54:46 (5126)

2001-03-01 11:54:46# 126. lþ. 80.5 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv. 7/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[11:54]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram að útlendingar lenda í því víða í Evrópu og í öðrum heimshlutum að þeim er hent á milli landa, þ.e. enginn er tilbúinn að taka ábyrgð á þeim og veita þeim meðferð. Dyflinnarsamningurinn tryggir að flóttamenn fái meðferð og það fer eftir ákveðnum reglum sem koma fram í 4.--8. gr. Þetta eru reglur sem taka við hver af annarri til þess að finna flóttamanninum stað, til þess að það sé alveg ljóst að hann fái meðferð í einhverju landi og honum verði ekki hent á milli landa.

Framkvæmd samningsins er sú að flóttamaður sem kemur til Íslands og Ísland kýs að vísa honum frá --- en Ísland getur líka kosið að taka við honum, en ef það kýs að vísa honum frá, þá verður honum ekki vísað frá nema landið sem er fyrsta val verði tilbúið að taka á móti honum. Þetta frv. er því réttarbót fyrir flóttamenn og ég undrast það að Samfylkingin skuli ætla að sitja hjá í þessu máli. Það verður eftir því tekið.