Staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:02:10 (5141)

2001-03-01 14:02:10# 126. lþ. 80.94 fundur 346#B staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Íbúar landsbyggðarinnar geta ekki annað en litið á stjórnvöld og núv. ríkisstjórn sem andstæðing sinn vegna stefnuleysis ríkisstjórnarinnar í málefnum þeirra. Ríkisstjórnin hefur ekki náð neinum takti við íbúa landsbyggðarinnar undanfarin ár.

Núv. hæstv. ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hefur stuðlað að mestu byggðaröskun sem um getur með aðgerðaleysisstefnu sinni. Byggðastefna núv. ríkisstjórnar er skýr, hún er stefna aðgerðaleysis. Smátilburðir ríkisstjórnarinnar til að breyta um stefnu eru til að brosa að eða gráta yfir, eftir hvernig á það er litið, og aldrei öðruvísi en að koma að málum þegar allt er komið í óefni.

Nefna má málefni Bolvíkinga, málefni Hríseyinga, nefna má fjarvinnsluverkefnin sem flytja átti út á land og nefna mætti málefni margra annarra byggðarlaga. Hæstv. ríkisstjórn er eins og vanbúið slökkvilið sem kemur allt of seint á vettvang og mætir stundum alls ekki.

Ríkisstjórnin hefur sannarlega stuðlað að fjölgun starfa og framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu en ríkisstjórnin hefur líka fækkað störfum og framkvæmdum á landsbyggðinni. Nefna má t.d. að á vegum samgrn. hafa loftskeytastöðvar á Ísafirði, Siglufirði, Neskaupstað og Vestmannaeyjum verið lagðar af, fækkað um 30--35 störf. Pósthúsin, sem við erum að ræða hér um, sem verið er að loka einu af öðru úti um allt land og fækka störfum. Verið er að fækka starfsmönnum flugvalla og þeir eru að týna tölunni einn af öðrum.

Herra forseti. Alþingi hefur sett takmarkanir á tvo höfuð\-atvinnuvegi landsbyggðarinnar, sjávarútveg og landbúnað, sem hefur m.a. stuðlað að þeim þjóðarvanda sem flutningur fólks af landsbyggð til höfuðborgar er.

Herra forseti. Ég vil að lokum spyrja hæstv. byggðamálaráðherra, vegna þess að hér fyrr í haust var boðuð umræða um framkvæmd byggðaáætlunar: Hvenær verður þessi umræða? Eða treystir hæstv. byggðamálaráðherra sér alls ekki í slíka umræðu á hinu háa Alþingi?