Staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:06:38 (5143)

2001-03-01 14:06:38# 126. lþ. 80.94 fundur 346#B staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ákaflega dapurlegt til þess að vita að þvert ofan í öll fögru fyrirheitin um að dreifa opinberri þjónustu um landið, þvert ofan í yfirlýst markmið byggða\-áætlunar stjórnvalda, bæði síðastgildandi og núgildandi, um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni sérstaklega þá hefur fjölda fólks verið sagt upp hjá opinberum eða hálfopinberum fyrirtækjum. Einkavæðingin, háeffunin fína, lausnarorðið mikla, birtist landsbyggðinni þannig að símstöðvum og pósthúsum er lokað, bankaútibú draga saman starfsemi, segja upp fólki og hafa opið í besta falli í tvo til fjóra tíma á dag. Verslun dregst saman sem auðvitað kemur stjórnvöldum við þó að hún sé á hendi einkaaðila enda algengur liður í byggðastefnu víða erlendis að styrkja strjálbýlisverslun. Flug leggst af, starfsmönnum Flugmálastjórnar er sagt upp og þar fram eftir götunum. Meira að segja olíudreifing og sjoppur loka þannig að menn fá með höppum og glöppum afgreitt bensín í gegnum sjálfsala á ferðum sínum um landið.

Ég hef, herra forseti, að undanförnu orðið áþreifanlega var við það í samtölum við fólk í byggðum vítt um landið að það hefur orðið snögg og mikil breyting til hins verra hvað varðar almennt þjónustustig. Ég fullyrði að það er ekki óalgengt í miðlungssjávarplássum með 300--800 íbúa að milli 10 og 20 störf af þessum toga hafi tapast núna á allra síðustu missirum. Þetta gerir mannlífið daufara, atvinnulífið einhæfara o.s.frv.

Svo eru menn undrandi á því að það hrikti í byggðinni. Er það nú ekki þannig, herra forseti, að það væri nærtækara að reyna að hlúa að því sem fyrir er og verja það heldur en að horfa á það rústast og ætla svo að reyna að fara ofan í hinn vasann og sækja eitthvað til stuðnings byggðunum sem menn rústa niður með hinni hendinni? Þetta er algjör blindgata, herra forseti, sem menn eru þarna komnir í.