Staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:11:20 (5145)

2001-03-01 14:11:20# 126. lþ. 80.94 fundur 346#B staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), Flm. JB
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þau atriði sem hér hafa komið fram þó að ekki hafi þau öll verið uppörvandi. Ég vil leggja áherslu á það, eins og ég gerði áðan, að það verður að líta á málið samræmt.

Hæstv. iðnrh. vék að því að hægt væri að setja kröfur á opinbera þjónustu um lágmarksgæði og aðgengi. En æ stærri hluti af almannaþjónustunni sem var áður opinber eða hálfopinber er nú að verða einkavæddur að hluta eða öllu. Og það er ekki hvað síst um þessa þjónustu, þessa einkavæddu og hálfeinkavæddu þjónustu sem þörf er á að setja reglur, setja á þjónustukvöð, setja á þjónustuskyldur. Að mínu viti, herra forseti, er það einmitt hlutverk þess ráðherra sem fer með byggðamál að skylda önnur ráðuneyti til að senda inn allar breytingar sem geta haft áhrif á þjónustu og byggð í landinu og ráðherra byggðamála hafi þannig heildarsýn yfir málið og geti gert athugasemdir. Annars er þetta ráðuneyti ekki til mikils.

Þetta eru grundvallaratriði almennu þjónustunnar. Aðrar byggðaaðgerðir, önnur búsetuskilyrði verða hjóm eitt ef þeim er ekki fullnægt og þarna er hlutverk hæstv. byggðamálaráðherra.