Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 15:14:24 (5161)

2001-03-01 15:14:24# 126. lþ. 80.8 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér var einungis verið að reyna að leita samstarfs við ráðuneytið og viðskrh. sem fer með þetta mál um að leiða hið rétta og sanna í ljós í málinu vegna þess að það er mjög athyglisvert vegna þeirra alvarlegu athugasemda sem hér koma fram að þess sé einskis getið í þeim frumvörpum, þeim þremur sem við erum hér að fjalla um. Mér kemur mjög á óvart að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa haft vitneskju um það eða embættismenn hennar hafi ekki gert ráðherranum grein fyrir þeim umsögnum sem búnar eru að liggja fyrir í næstum heilt ár um þetta mál.

Mér finnst mjög mikilvægt að þegar slíkar upplýsingar koma fram hafi hæstv. ráðherra frumkvæði að því að fara ofan í málið og leggja fyrir nefndina það rétta og sanna í því. Auðvitað væri eðlilegt af minni hálfu að óska eftir því við hæstv. forseta að fresta málinu þar til hæstv. ráðherra gæti lagt fyrir það sem um er beðið þar sem hæstv. ráðherra er svona tregur til samvinnu um málið og þann einfalda hlut sem ég er að biðja um að hún, sem er í forsvari fyrir þessu máli, hafi frumkvæði að því að slíkt blað sem hún gæti útbúið og farið yfir um stöðu þessa máls með fjmrh. verði sent nefndarmönnum í efh.- og viðskn. þannig að eðlilegur framgangur geti verið á þessu. Ég spyr eina ferðina enn: Er ekki hægt að haga málum með þeim hætti að eitthvert minnisblað komi frá þeim hæstv. tveimur ráðherrum sem þetta mál heyrir undir þannig að ekki þurfi að koma fram ósk af minni hálfu um að fresta málinu? Ég spyr um það, herra forseti. Annars mun ég óska frestunar á málinu þar til þetta liggur fyrir.