Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 18:20:13 (5203)

2001-03-05 18:20:13# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[18:20]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að munurinn á þessum tveimur hugmyndum er í meginatriðum sá sem hann nefndi. Ég geri að vísu ráð fyrir því í hugmyndum mínum að fjórðungur til þriðjungur af veiðiheimildunum verði á forræði sveitarfélaganna en hins vegar verði þær eftir sem áður leigðar á markaði þannig að tekjurnar af því renni til sveitarsjóða en ekki ríkissjóðs. Sveitarfélögin hafi heimildir til þess að binda skilyrðum þann hluta heimildanna sem þau hafa yfir að ráða sem eiga að tryggja atvinnuhagsmuni í byggðarlaginu, gætu t.d. sett þá skilmála að þeim sem leigðu þessar tilteknu veiðiheimildir væri skylt að gera út frá viðkomandi verstöð, landa þar eða selja aflann til vinnslu þar. Það mundi auðvitað hafa áhrif á væntanlegt markaðsverð þeirra veiðiheimilda. Það gæti verið lægra vegna skilmálanna en engu að síður mundi það þjóna sínum tilgangi og treysta atvinnu og byggð.