Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 14:39:43 (5231)

2001-03-06 14:39:43# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[14:39]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80/1966, um Kísilgúrverksmiðju við Mývatn, með síðari breytingum. Frv. þetta kveður á um að iðnrh. sé heimilt að selja 51% eignarhlut ríkisins í Kísiliðjunni.

Sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn. fagna ég því að þetta frv. er komið fram vegna þess að eins og ég kem að síðar í máli mínu tel ég að þetta opni marga möguleika. Eins og komið hefur fram í ræðum manna á undan mér eru allir meðvitaðir um að starfsemi Kísiliðjunnar við Mývatn hefur verið mjög umdeild svo vægt sé til orða tekið, allt frá því að Kísiliðjan við Mývatn var stofnuð 13. ágúst 1966. Þess vegna er sú sýn sem sett er fram í þessu frv. með samningum um sölu Kísiliðjunnar allrar athygli verð og ber að skoðast.

Ekki fer á milli mála að Kísiliðjan við Mývatn hefur gríðarlega þýðingu fyrir samfélagið í Mývatnssveit. Árið 1977 mat Byggðastofnun þýðingu Kísiliðjunnar fyrir efnahags- og atvinnulíf í Mývatnssveit og niðurstaðan varð sú að líklegt mætti telja að 75 ársverk mundu hverfa úr atvinnulífi sveitarfélagsins ef starfsemi Kísiliðjunnar hf. mundi hætta og um 210 íbúar þyrftu að finna sér annað lífsviðurværi að öllu óbreyttu. Eftir stæði 260 manna samfélag sem væri að stórum hluta í dreifbýli með um 130 ársverk og 10% lægri meðallaun en nú. Byggðastofnun reiknaði með að tekjur sveitarsjóðs gætu dregist saman um helming og tekjur Húsavíkurbæjar mundu dragast saman um 4% auk þess sem minni verkefni yrðu í tengslum við útflutning um Húsavíkurhöfn. Það liggur þess vegna ljóst fyrir að ekki er einvörðungu samfélagið í Mývatnssveit sem hér er um að ræða. Þessi starfsemi hefur haft mikla efnahagslega þýðingu fyrir Húsavík og raunar allt svæðið í kring. Þess vegna er mjög athyglisvert að nú skuli kominn upp sá flötur að nýtt fyrirtæki sem kaupir Kísiliðjuna hyggi á byggingu og rekstur kísilduftverksmiðju. Þetta fyrirtæki segist munu, að fenginni niðurstöðu um hagkvæmni kísilduftverksmiðju, skuldbinda sig til að reisa næstu verksmiðju á lóð Kísiliðjunnar hf. og eiga og reka fyrirhugaða kísilduftverksmiðju. Í greinargerð segir að áformin séu í stuttu máli þau að kísilgúr verði framleiddur, að fengnu nýju námaleyfi, til ársloka 2004 með möguleika á framlengingu um allt að tvö ár. Ég tel að það séu spennandi áform sem þarna er lagt upp með og ég vona svo sannarlega að með umfjöllun í iðnn. fáum við skýringar á því og getum haft áhrif á hvernig þessi áform verða sett út í veruleikann.

Það sem ég tel þó kannski mikilvægast í þessu frv. er viðbótin við 12. gr. laganna, sem verður 2. gr., sem kveður á um að:

,,Starfræktur skal sérstakur sjóður, Kísilgúrsjóður, sem hafi það hlutverk að kosta undirbúning aðgerða til þess að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem nú eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar.`` --- Og það segir í frv.:

,,Ráðstöfunarfé sjóðsins skal vera:

1. 20% af námagjaldi kísilgúrverksmiðjunnar árið 2001.

2. 68% af námagjaldi verksmiðjunnar frá og með árinu 2002 og þar til kísilgúrvinnslu er hætt.

3. Framlag á fjárlögum samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni.

4. Aðrar tekjur.``

Ef til vill væri ástæða til að staldra við þriðja liðinn og kannski að framkalla meiri bindingu hvað fjárupphæðir varðar þannig að menn gætu skipulagt sig betur varðandi uppbyggingu á atvinnumálum í Mývatnssveit. Ég held að það væri ákaflega mikilvægt.

Vegna þess að burt séð frá áformum eigenda Promeks, kaupendanna um kísilduftverksmiðju, liggur alveg ljóst fyrir að í Mývatnssveit og nánasta nágrenni verður að huga að atvinnuuppbyggingarmálum í víðara samhengi. Þetta er náttúruperla og það þarf uppbyggingu vegna umhverfismála, stígagerð o.fl. Það þarf að hlúa að ferðamannastarfseminni á svæðinu.

[14:45]

Þörf er á alhliða umhverfisbótum í Mývatnssveit og ljóst að á næstu missirum verður gríðarleg starfsemi í nágrenni Mývatns á sviði orkumála, iðnaðar og ferðamála. Undir þær áætlanir þyrfti að fella svæðið austur fyrir, alveg austur að Kröflu en þar þarf töluverða uppbyggingu á næstu missirum. Uppi eru áform um heilsulind í einhverju formi í Námaskarði o.s.frv. Í mínum huga hefur þessi sjóður þannig gríðarlega mikla þýðingu. Þess vegna væri betra að hafa glögga mynd af umfangi hans svo gera megi ráðstafanir og áætlanir til lengri tíma um alhliða uppbyggingu í Mývatnssveit.

Það dylst engum, þó allir viðurkenni hversu mikla þýðingu Kísiliðjan hefur haft fyrir Mývatnssveit, að starfsemin hefur náttúrlega í aðra röndina kostað ríkissjóð stórfé. Kísiliðjan er t.d. fóðruð orku frá gufuveitum ríkisins sem upprunalega voru settar á laggirnar af ríkissjóði. Ef ég man rétt voru fyrir 14 árum síðan afskrifaðar tugmilljónir króna hjá því fyrirtæki sem afhenti orkuna til Kísiliðjunnar. Óbeint hefur Kísiliðjan, ekki bara verksmiðjan sjálf heldur og annað tengt henni kostað stórfé.

Ég vil líka taka undir þá gagnrýni að meðan Kísiliðjan var í svokallaðri biðstöðu, sem við getum sagt að sé fram að deginum í dag, þá höfðu menn ekki nein áform um heildstæða atvinnuuppbyggingu og er það miður. Ég held að þá hefði verið annað hljóð í mönnum og önnur staða ef menn hefðu gripið til einhverra hliðarráðstafana eins og víða er gert þegar stórar verksmiðjur hætta rekstri. Við þekkjum þetta svo víða. Við þurfum ekki annað en að fara til Mið-Englands þar sem kolanámurekstur hefur verið lagður niður. Þar hafa menn neyðst til að snúa sér að öðru og náð gríðarlega góðum árangri, m.a. með opinberum styrkjum. Mér finnst mikilvægt að það komi fram.

Úr því að menn fóru um vítt og breitt í umræðunni þá ætla ég að leyfa mér það líka. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hafði allt á hornum sér varðandi lög um verndun Laxár og Mývatns. Í raun hélt ég að sjónarmiðin sem þar komu fram heyrðu gærdeginum til vegna þess að lögin um verndun Laxár og Mývatns eru auðvitað verndunarlög. Menn verða að átta sig á því, þegar talað er í þessum dúr gagnvart landinu í heild sinni, að við erum nýbúnir að samþykkja lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Vandséð er hver tilgangurinn er með að slá því fram að menn megi ekki byggja kofa á Geiteyjarströnd án þess að fá leyfi. Það má hvergi byggja kofa, ekki einu sinni sex læra reykkofa án þess að það fari fyrir skipulagsyfirvöld og mat á umhverfisáhrifum í heild sinni.

Ég held að menn séu ekkert betur settir með því að agnúast út í lögin um verndun Laxár og Mývatns og telja að þau hafi þau áhrif að menn komist ekki neitt áfram. Heildarlögin setja að mörgu leyti sömu skorður við áformum manna um að byggja o.s.frv. Ég held að ef menn vilja vera raunsæir þá séu það ekki þau lög sem hindra uppbyggingu eða framtíðarplön í Mývatnssveit heldur vanti kannski skilninginn á því að vinna með lögunum. Það er sama hvar sveitarstjórnin er. Það þurfa allir að fara í gegnum skipulagsferli, fá framkvæmdir samþykktar o.s.frv. Ég held að allt of mikið sé gert úr því að lögin um verndun Laxár og Mývatns séu einhver þrándur í götu.

Virðulegi forseti. Ég vil að síðustu segja að þetta frv. fer til umsagnar iðnn. og þar fáum við tækifæri til að fara betur í þessi mál. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum ávallt lagt áherslu á að við værum ekki andvíg því að selja verksmiðjur í rekstri ríkisins. Við höfum lagst alfarið gegn því að selja úr ríkiseigu stoðkerfi landsins, hvort sem það er í rafmagnsmálum, heilbrigðismálum eða fjarskiptamálum. Verksmiðjurekstur af þessu tagi er ekki heilagur fyrir okkur og ég lít nú þannig á að við verðum betur í stakk búin til að gera góða hluti á svo mikilvægu verndarsvæði ef við stöndum hlutlaus gagnvart rekstrinum, gagnvart þeim sem hugsanlega færi í vinnslu á kísildufti á svæðinu. Oft er erfitt að sitja beggja vegna borðs. Frá stofnun verksmiðjunnar má náttúrlega segja að ríkið hafi setið beggja vegna borðsins. Kannski stæðu málin öðruvísi ef svo hefði ekki verið.

Að síðustu þetta: Það mætti setja á langa ræðu um atvinnumál í Mývatnssveit og öllu því svæði en bara til að halda því til haga fyrir hv. 1. þm. Norðurl. e. þá erum við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði auðvitað hlynnt atvinnuuppbyggingu á jákvæðum nótum á öllu svæðinu. Málið snýst ekki um það heldur hvernig verði staðið að því. Það þýðir ekki að koma hvað eftir annað og leggja fram sínar hugmyndir og ef mótaðilinn vill ekki samþykkja þær þá fái hann í andlitið: Ja, þið eruð á móti öllu.

Menn eru kannski ekki sammála um þær hugmyndir sem settar eru fram af mótaðilanum og vilja aðrar lausnir en þar með eru þeir ekki á móti öllu. Auðvitað vilja menn framfarir og nota orkuna. Málið snýst um hvernig eigi að nýta kostina. Það er gott til þess að vita að nú er að koma fram frv. um orkulög. Eins og allir vita búa Þingeyjarsýslur yfir gríðarlegum orkuforða. Ég vil enda þetta innlegg mitt með því að ég er jákvæður í garð þessa frv. Ég mun leggja mig fram um að koma málum svo fyrir að orkuforði Þingeyjarsýslna megi nýtast, á hvaða hátt sem ákveðið verður að vinna hann, því fólki sem býr næst þeim auðlindum sem svæðið býr yfir. Það er grundvallaratriði.