Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 14:53:28 (5232)

2001-03-06 14:53:28# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga sem heimilar ráðherra að selja hlut ríkisins í kísilgúrverksmiðjunni við Mývatn. Ég hlýt að gleðjast yfir því vegna þess að ég er á móti því að ríkið standi í svona rekstri og bisness. Ræða hæstv. iðnrh. var í takt við það. Þar var mikið rætt um bisness og alls konar tækni, um kísilryk, kísilgúr, kvars, perlustein og vikur og alls konar útlend nöfn á fyrirtækjum út og suður. Bisness og aftur bisness, herra forseti, á hinni háu löggjafarsamkundu Íslands. Í staðinn fyrir að setja almenn lög um atvinnulífið þá ræðum við um bisness en sem betur fer, herra forseti, deyjandi bisness af því að nú á að fara að selja þetta. Það játast.

Reyndar gátu menn ekki látið lögin alveg detta út þannig að lagasafnið yrði snyrtilegra fyrir þá sem það lesa öðru hverju. Nei, örlítið skal lifa eftir, einhver kísilgúrsjóður. Þessi sjóður er ógnarlegt bákn vegna þess að hann á að hafa óskaplegar tekjur. Það er það sem standa á eftir sem lög. Hann á að hafa 20% af námagjaldi kísilgúrverksmiðjunnar árið 2001 og síðan 68% af námagjaldi verksmiðjunnar frá og með árinu 2002 og þar til kísilgúrvinnslu er hætt.

Ekki veit ég hvernig menn fundu þessi 68%. Það getur vel verið að iðnn. komist að þeirri niðurstöðu að það skuli vera 69%. Hvaða tölur eru á bak við þetta? Algjör, með leyfi herra forseta, ég segi nú kannski ekki tittlingaskítur, en þetta eru smáaurar. Málið snýst um einhverjar 3 millj. á ári. Það er eins gott að stjórnin, sem skipuð er fimm mönnum, sé ekki með há laun því að þá er sjóðurinn farinn.

Að menn skuli stofna sjóði og setja um þá sérstök lög og prenta inn í lagasafnið til að halda utan um 3 millj. eða svo á ári í einhver ár, kannski 2--4 ár í viðbót. Nei, herra forseti, ég legg nú til að menn bara leggi þetta alveg af, heimili ráðherra að selja verksmiðjuna og síðan renni þessir litlu peningar, námagjaldið, bara í ríkissjóð. Menn ættu að hætta að búa til svona sjóði út og suður sem ekkert hafa að segja nema að þar er stjórn sem þarf að skipa, þarf að mæta á fundi og drekka kaffi og síðan fær hún stjórnarlaun og síðan eru einhverjir peningar settir í eitthvert gæluverkefni einhvers staðar. Afskaplega lítið sniðugt.

Ég ætla rétt aðeins, herra forseti, að koma inn á það sem formaður vinstri grænna sagði hér áðan um umhverfismálin. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að svona verksmiðja yrði ekki stofnuð í dag. Hvaða skilaboð eru það til landsbyggðarinnar? Nú fer hver einasti maður úti á landsbyggðinni að líta í kringum sig og vonast til að landslagið í kringum hann sé ekki fallegt og ekkert sérstakt því þá geti komið einhverjir umhverfissinnar og bannað allar framkvæmdir.

Þessi verksmiðja hefur verið mikil lyftistöng fyrir þetta svæði. Þarna eru 75 störf og um 40% af íbúum sveitarfélagsins lifa meira og minna af þessari verksmiðju. Það sem hv. þm. var að segja er að þessi störf hefðu aldrei orðið til ef umhverfismál hefðu verið verið komin á það stig sem þau eru í dag. Þessi störf hefðu aldrei orðið til, Mývatnssveit hefði aldrei orðið það sem hún er í dag. Hann er að segja það.

Þarna rekast náttúrlega umhverfisverndun og umhverfismál illilega á byggðamál. Hér í Reykjavík má gera alla hluti án þess að fara í umhverfismat. Kópavogur er á leiðinni til Reykjavíkur hægt og rólega yfir veginn. Menn fylla upp og fylla upp, einskis spurt og ekkert umhverfismat, ekki neitt. Ekkert bra-bra sem þarf að kíkja á þar eða neitt svoleiðis. Þar má gera allt. En þarna býr fólk sem gerir kröfur um að ekki megi hreyfa stein úti á landi. Það má ekki velta við steini úti á landi, þá skal allt fara í umhverfismat.

Þetta eru skilaboðin til landsbyggðarinnar og það getur vel verið að þetta sé bara niðurstaðan. Sumir hafa sagt að kísilnámið hafi hreinlega bjargað vatninu frá því að breytast í mýrlendi. Sumir hafa sagt það þó þar stangast á skoðanir. Ef ekki hefði verið þetta nám þarna þá hefði vatnið orðið svo grunnt að þar mundi enginn fiskur þrífast og svæðið verða að mýri. Í rauninni telja sumir að í það stefni hægt og bítandi, bæði með foki og myndun kísilgúrs.

Það eru tvær hliðar á öllum málum. Það eru líka tvær hliðar á umhverfisstefnu sem gengur svo hart fram --- það getur vel verið með réttu --- að það megi í raun ekki breyta neinu. Þá verða menn úti á landi bara að vona að umhverfi þeirra sé ekki sérstaklega fallegt og ekki þess virði að vernda það og þá megi gera ýmsa hluti, byggja kofa og reisa litlar verksmiðjur og svoleiðis. Annars mega þeir það ekki.