Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 15:47:42 (5243)

2001-03-06 15:47:42# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er verið að leggja fram frv. til laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hefur þetta fyrirtæki verið til frá árinu 1976 og haft það hlutverk að sjá Vestfirðingum fyrir raforku svo að þeir gætu haft ljós í húsunum sínum og eldað matinn eins og annars staðar er gert í okkar landi. Ég lít svo á að þetta hafi líka verið gert til að tryggja öllum rafmagn, til að sjá svo um að enginn á Vestfjörðum þyrfti að búa við raforkuskort. Reyndar mætti vera betri staða í málum þar sem vantar þriggja fasa rafmagn á ýmsa bæi og staði á Vestfjörðum sem annars staðar.

Eignarhald á raforkufyrirtækjum getur verið með ýmsu móti. Það er hægt að hugsa sér að það sé í einkaeigu og þá sé ég fyrir mér t.d. bændur, bóndabýli, þar sem íbúar eru með litla rafstöð fyrir býlið. Það er líka hægt að hugsa sér samvinnu nokkurra bænda sem eiga á saman eða hafa möguleika til að virkja á þar sem lönd þeirra liggja saman að ánni og mynda þannig einhvers konar sameignarfélag, hlutafélag eða einhvers konar eignarhaldsfélag um raforkuframleiðslu. Það er ágætt þegar svo er hægt að gera og ættum við þegar við erum að tala um þetta og um Vestfirðina að stuðla að því að fólk geti í ríkari mæli nýtt þá óbeisluðu orku sem er fyrir framan það. Það verður sjálfsagt mögulegt með nýjum orkulögum sem verða lögð fram og mun vonandi gefa þessu fólki aukin tækifæri til þess að efla sína stöðu í byggðunum og í sveitunum. Það gæti þá jafnvel selt rafmagn, þ.e. ekki framleitt rafmagn eingöngu fyrir sitt býli, heldur gæti það líka selt út á netið, raforkudreifingarkerfið sem við reynum náttúrlega að halda í eigu þjóðarinnar, því það skiptir að sjálfsögðu miklu máli hver á það og hver ræður yfir því hvaða rafmagn fær að renna eftir þeim leiðslum.

Síðan er hægt að tala um eignarhald sveitarfélaga á raforkuverum eins og t.d. Orkubú Vestfjarða, þarna standa sveitarfélögin saman að raforkuframleiðslu ásamt ríkinu. Orkuveita Reykjavíkur er náttúrlega líka gott dæmi um þetta. Öll þessi orkuver hafa auðvitað verið reist til hagsbóta fyrir íbúana, til þess að þeir búi við betri kost, eins og ég sagði, fái rafmagn og hita og geti eldað með raforku, en þurfi ekki að vera með gömlu kabyssuna eða hlóðir eins og áður var.

Fulltrúar sveitarfélaganna hafa skrifað undir samkomulag sem er í raun forsenda þess að þetta frv. er lagt fram. Það samkomulag býr yfir nokkrum ákvæðum, m.a. þeim að það fólk sem vinnur hjá Orkubúi Vestfjarða og starfsmenn Orkubús Vestfjarða muni ekki missa störf sín og að vinna þeirra sé trygg áfram. Ég sé að ákvæðið kemur inn í lögin líka og ég fagna því að réttindi þess fólks sem starfar hjá þessu fyrirtæki séu lögvernduð. Það er sem sagt ekki verið að breyta lögunum um orkubúið til þess að gera einhverjar stórkostlegar eða svokallaðar hagræðingaraðgerðir sem stundum eru gerðar og felast oft í því í fyrirtækjum að reka alla sem eru yfir fimmtugt og ráða miklu yngra fólk, fækka starfsmönnum o.s.frv.

Ég lít svo á að frv. feli einmitt í sér ákvæði til þess að verja starfsfólkið eins og kemur fram í 9. gr., með leyfi hæstv. forseta, þar sem segir:

,,Fastráðnir starfsmenn Orkubús Vestfjarða skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu hjá sameignarfélaginu`` o.s.frv. Þetta er náttúrlega mjög mikilvægt atriði.

Mig langar líka til að benda á að ég lít svo á að orkubúið hafi að sjálfsögðu áfram skyldur við íbúa Vestfjarða varðandi raforkuframleiðslu, orkuframleiðslu, til að stuðla að því að allir íbúar Vestfjarða hafi þann aðgang að rafmagni, að þeirri orku sem þeir þurfa og líka helst þegar verið er að stofna til nýrra fyrirtækja þar sem þarf að hafa þriggja fasa rafmagn eða eitthvað því um líkt, að orkubúið sjái svo um að þetta sé veitt, án þess að á neytendur, kaupendur orkunnar, séu lagðar sérstaklega miklar álögur eða svo miklar byrðar að þeir geti kannski ekki tekið til sín þriggja fasa rafmagn. En þetta mun framtíðin náttúrlega leiða í ljós.

Samkomulagið, sem undirritað var á Ísafirði þann 7. febrúar og er forsenda þess að þetta frv. til laga hefur verið lagt fram hér á hinu háa Alþingi, er í 11 greinum. Þar er einmitt minnt á í 7. gr., með leyfi forseta:

,,Komi til kaupa ríkisins á eignarhlut sveitarfélaga á Vestfjörðum í Orkubúi Vestfjarða hf., skal eftirfarandi gilda þar til breytt skipulag raforkumála tekur gildi, 1. júlí 2002, nema sameigendur samþykki annað:

Orkubú Vestfjarða hf. starfar sem sjálfstæð eining og verður ekki sameinuð öðru orkufyrirtæki.``

Svo er líka í þessari grein talað um stjórn Orkubúsins.

En mig langar til að spyrja hvort nokkur áform séu raunverulega uppi um það að ríkið kaupi þetta orkubú, þ.e. kaupi eignarhlut sveitarfélaganna í orkubúinu, og ef svo er hvort séð verði til þess þegar ríkið kaupir orkubúið að réttindi manna verði ekki skert.

En hvers vegna kemur þetta frv. fram? Er það vegna EES-samninga? Eða er það til einhverrar ákveðinnar hagræðingar sérstaklega sem hugsað er um í rekstrinum? Það er ýmislegt umhugsunarvert í sambandi við þetta mál.

Fram var lagt á fundinum þann 7. febrúar bréf eða bókun frá ráðuneytisstjórum til eigendafundar Orkubús Vestfjarða, þ.e. ráðuneytisstjórunum Baldri Guðlaugssyni í fjmrn. og Þorgeiri Örlygssyni í iðnrn. og einnig skrifaði undir þetta ráðuneytisstjóri í félmrn. Mig langar til að lesa þetta bréf ráðuneytisstjóranna, með leyfi forseta, en það hljóðar svo:

,,Með vísan til 9. gr. í samkomulagi sameignarfélaga Orkubús Vestfjarða, dags. 7. febrúar 2001, og til bréfs iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, dags. 7. nóvember 2000, til sveitarfélaga á Vestfjörðum, staðfestist hér með að ríkisvaldið mun í kjölfar stofnunar hlutafélags um Orkubú Vestfjarða gera öllum sameigendum sínum í Orkubúi Vestfjarða kauptilboð í eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða hf.`` Og svo kemur: ,,Í samningum um kaup á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða hf. mun ríkisvaldið ganga út frá að heildarverðmæti Orkubús Vestfjarða sé 4,6 milljarðar kr., enda verði söluverðmætinu varið til að greiða niður skuldir viðkomandi sveitarfélaga og til lausnar bráðavanda viðkomandi sveitarfélaga í félagslega íbúðarkerfinu í samræmi við það sem rætt hefur verið.``

Þegar hæstv. iðnrh. fylgdi þessu máli úr hlaði áðan þá kom ekkert fram um þetta. En með þessu bréfi sem er lagt þarna fram vaknar sú spurning hvort verið sé að stofna þetta hlutafélag um Orkubú Vestfjarða til þess eins að greiða niður skuldir þeirra sveitarfélaga sem eru í slæmri stöðu í hinu félagslega íbúðarkerfi. Er það málið?

[16:00]

Ég er algjörlega andvígur því að sveitarfélögum á Vestfjörðum verði settir einhverjir kostir í sambandi við þetta mál. Annaðhvort eru lögin samþykkt án fyrirvara um það að eigendurnir, sem eiga 60% í fyrirtækinu, ráði hvernig þeir fari með þá fjármuni sem þeir fá í hendur og þeim ber skylda til. Það er ekki hægt að mínu viti og í minni hugsun er það ekki rétt að segja við sveitarfélögin: Við skulum kaupa ykkar hlut ef þið borgið skuldirnar. Það má líka spyrja: Hvað um aðra sem eiga peninga hjá þessum sveitarfélögum? Er jafnræðis gætt gagnvart öðrum lánardrottnum, eða hvað?

Einnig vil ég velta því upp að alltaf þegar það kemur inn í umræðuna að selja orkubúið kemur þráfaldlega fram að sveitarfélögin séu svo skuldug að það sé best að þau selji orkubúið. Og svo þegar búið er að selja orkubúið og greiða upp í einhverjar skuldir, eru þá tekjur sveitarfélaganna orðnar svo miklar að allt verði í lagi og skuldirnar hætti að vaxa? Og hvað á að gera þá? Eigum við þá að selja hafnirnar? Eða eigum við að selja skólana? Það má velta fyrir sér ýmsum slíkum spurningum ef þessi aðgerð á að vera til þess að greiða skuldirnar í húsnæðiskerfinu. Þetta vildi ég að kæmi hér fram.

Það undirstrikar náttúrlega ástandið hjá byggðunum, í byggðamálunum, þegar fyrirtæki sem Vestfirðingar hafa verið svo stoltir yfir og ánægðir með, Orkubú Vestfjarða, þetta er gott tákn og merki um góða hluti sem þarna hafa verið gerðir, að þá skuli eiga að fara að selja þetta, ekki endilega til sérstakrar hagræðingar eða til að efla orkuframleiðslu á Vestfjörðum til þess að ýta undir byggðina og þess háttar, nei, það á að selja það upp í skuldir og það til ríkisins.

Við vorum áðan, hæstv. forseti, að ræða um Kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn því það á að fara að selja hana. Var það ekki rétt skilið? Og það á að nota andvirði hins selda til þess að byggja upp ný fyrirtæki eða aðra starfsemi í Mývatnssveit. En hérna er þessu alveg snúið við. Mér finnst einhvers konar mótsögn í þessu.

En sveitarfélagastjórnirnar hafa skrifað undir og fulltrúar sveitarfélaganna, og þeir hafa lýst því yfir að þeir vilji að salan eigi sér stað, en þeir hafa alls ekki gefið út neinar yfirlýsingar um það að fjármunirnir eigi að fara beint í Íbúðalánasjóð. Er ekki Íbúðalánasjóður og ríkið og fjölmörg önnur sveitarfélög um allt land að glíma við þessi mál? Eru ekki sams konar mál í gangi á Austfjörðum og víða um land? Ég spyr. Og ef svo er, má þá ekki spyrja: Ef þau eiga ekkert orkubú, hvernig á þá að bjarga málunum þar? Húsnæðislánakerfinu, þessu félagslega íbúðakerfi, þeim málum verður að bjarga á annan hátt og á sameiginlegum vettvangi. Það eiga allir að sitja við sama borð. Það eiga allir að njóta sama réttar og vera jafnir hvað þetta varðar, þegar um sömu vandamál er að ræða verður að taka á þeim með sama hætti. En nú er ég kannski farinn að tala aðeins út í annað.

Hins vegar vil ég segja það að lokum að ég vona innilega að þetta ákvæði eða þetta bréf ráðuneytisstjóranna sem áður voru nefndir, sem undirrituðu frá fjmrn., iðnrn. og félmrn., þetta eru hvorki meira né minna en þrjú ráðuneyti sem er nú nokkuð mikið, en þetta ákvæði komi ekkert meira inn í umræðuna og ég vona að það hafi bara verið nokkurs konar slys, en ekki að það verði sett einhvers konar ól um hálsinn á sveitarfélögunum sem skulda, heldur að þau fái að halda sinni reisn og þau fái að semja um skuldir sínar á eðlilegan hátt, en ekki verði sagt: Við skulum kaupa af ykkur, við breytum þessu í hlutafélag, en peningana fáum við. Ég tel auk þess líka að það mætti jafnvel segja að verið væri að brjóta jafnræðisreglu með þessu gagnvart öðrum skuldurum. Og þegar við tölum um það og hugsum um það, þá dettur mér í hug að frv. um lagaráð sé mjög gott og nauðsynlegt hér til samþykktar á Alþingi.