Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 17:25:52 (5255)

2001-03-06 17:25:52# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[17:25]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða.

Það er alveg makalaust hvað ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og í þessu tilfelli hæstv. iðnrh., hvað ríkisstjórnin hefur gott lag á því að byrja á hlutunum á öfugum enda. Þetta frv. um að hlutafélagavæða Orkubú Vestfjarða er á svo snarvitlausum tíma miðað við það sem fyrir okkur liggur í orkugeiranum þar sem tilkynnt hefur verið að á næstu grösum sé nýtt frv. um orkulög.

Í þessu sambandi verðum við að átta okkur á því hver staðan er. Það kom fram í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar fyrr í dag að Vestfirðingar byggju við lægra orkuverð en þeir sem fá þjónustu frá Rarik. Þetta er alveg rétt. Staða Vestfirðinga er þannig að þeir voru svo ljónheppnir að við uppstillingu á orkubúinu héldu þeir framleiðslutækjum, sem sagt orkuframleiðslutækjum innan fyrirtækisins. Staða Orkubús Vestfjarða er þannig í dag að orkubúið framleiðir sjálft um 40% af því afli sem er notað á Vestfjörðum og það er meginatriði í stöðunni.

Ef við tökum Rarik á hinn bóginn þá framleiðir Rarik ekki nema 7% af eigin afli í tiltölulega smáum virkjunum. Menn verða að átta sig á heildarsamhenginu. Hvernig ætla menn að standa frammi fyrir breytingum í orkugeiranum þannig að það sé réttlæti gagnvart öllum landsmönnum?

Orkulögin voru, að mínu mati, þegar þau komu fram, rammi til nýrrar framtíðar í orkugeiranum. Og það er náttúrlega grundvallaratriði núna að menn fari í þessa vinnu, skoði ný orkulög, skoði nýjar leikreglur og séu ekki að búa til hlutafélög þegar þessi vinna er rétt handan við hornið.

Það er svo himinklárt í mínum huga að það að selja eignir Vestfirðinga á þennan hátt er auðvitað til komið út af skuldastöðu sveitarfélaganna og þar ber náttúrlega hæst 1,8 milljarða sem eru í félagslega íbúðakerfinu. En það er ekkert réttlætismál að Vestfirðingar einir þurfi að selja eignir til þess að jafna þá stöðu. Það gengur bara ekki upp. Félagslega íbúðakerfið, þar sem hefur orðið fólksfækkun, er stjórnsýsluleg mistök sem á að taka á fyrir landið allt hér á hinu háa Alþingi.

Hlutafélagavæðing Orkubús Vestfjarða núna er flumbrugangur og til þess fallið að eyðileggja möguleika fyrir Vestfirðingum til lengri tíma litið. Lægra orkuverð Orkubús Vestfjarða er eins og ég segi vegna þess að Vestfirðingar báru gæfu til þess að halda eftir framleiðslutækjunum, aðallega Mjólkárvirkjun en smærri virkjanir einnig.

[17:30]

Aðalvandi Rariks er að hafa ekki framleiðslutæki. Með nýjum orkulögum þarf að fara í öll þessi mál, endurmeta hvernig eigi að standa að þessum málum. Rarik, með 7% framleiðslu, er algerlega bundið af því að kaupa afl frá Landsvirkjun. Landsvirkjun er sett á stofn til að þjóna stóriðjunni. Á sínum tíma, þegar Landsvirkjun var búin til, voru öll framleiðslutækin sett í þann pott með örfáum undantekningum til að þjóna stóriðjunni. Eigendurnir innan Landsvirkjunar eru vel settir, þéttbýlið, Akureyrarkaupstaður og höfuðborgarsvæðið. Önnur svæði eru einnig vel sett, t.d. notendur orkunnar frá Andakílsárvirkjun, þ.e. Akranes.

Við verðum að fá svör áður en við förum í róttækar breytingar af þessu tagi. Hér erum við að tala um stór fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Orkubú Vestfjarða er metið, eftir því sem ég best veit, á 4,6 milljarða. Við verðum að leggja línurnar að því hvernig við ætlum að standa að orkumálum, orkuflutningum og orkuframleiðslu á grunni nýrra orkulaga áður en við samþykkjum flumbrugang af þessu tagi. Það hefur berlega komið í ljós að þetta er einvörðungu til að losa peninga og laga skuldastöðu. Að tala um það úr þessum ræðustóli að menn af Vestfjörðum séu að biðja um þetta og geri það sjálfviljugir. Hvernig er hægt að taka svona trúanlegt? Hver er samningsstaða þess sem kominn er út í horn? Hvað semja þeir ekki um ef þeir eiga ekki fyrir nagla? Auðvitað geta menn samið og það er hægt að segja, þegar allt um þrýtur, að menn semji á viðskiptalegum grundvelli en á Vestfjörðum hafa átt sér stað svo gríðarleg samfélagsleg umbrot að það verður að taka þetta inn í heildarpott.

Ég er tilbúinn að ræða um hlutafélagavæðingu á Orkubúi Vestfjarða að lokinni vinnu að nýjum orkulögum. Þau eiga að vera grunnurinn. Ég er ekki tilbúinn að ræða um hlutafélagavæðingu á Orkubúi Vestfjarða út frá þeim forsendum sem nú er gengið út frá og staðfestar eru í bak og fyrir. Ég er ekki tilbúinn í það. Á grunni nýrra orkulaga verðum við á hinu hv. Alþingi að fara yfir það hverjir eigi t.d. að standa straum af kostnaði við dreifbýlisveitur. Við getum ekki eingungis lagt það á fyrirtækin Rarik eða Orkubú Vestfjarða sem þjóna langstærstum hluta dreifbýlisins. Það er ósanngjarnt að þessi tvö fyrirtæki og notendur þeirra borgi það sem er óarðbært í dreifbýlinu. Þannig er þetta í dag og hefur versnað ár frá ári vegna þess að ríkið er alltaf að draga við sig framlög til Rafmagnsveitna ríkisins. Þegar nýju orkulögin koma til skoðunar verður að fara ofan í þetta allt saman og gera leikreglur fyrir allt landið. Það verður að hafa allt undir í því sambandi. Þess vegna er ótímabært að fara í þessa lagasetningu núna.

Hvernig á að standa straum af jöfnun orkukostnaðar á landinu? Hvernig gera aðrir það? Við vitum það alveg. Eins og tæpt var á í skýrslu auðlindanefndar eru til aðferðir til að jafna verðið og dreifa orku þar sem það er ekki arðbært, t.d. með því að setja framleiðslugjald á þau fyrirtæki sem framleiða orku. Það er gert sums staðar þannig að allir landsmenn borgi. Í öðrum löndum er farin skattaleið. Norðmenn fikta t.d. í söluskattinum eftir því sem ég veit best veit og jafnvel Skotar líka.

Síðast en ekki síst er hægt að viðhalda þeirri leið sem upprunalega var farin, þ.e. með beinum ríkisframlögum til Rariks. En þessi beinu ríkisframlög til Rariks eru, ef ég man rétt, ekki nema 135 millj. á þessu ári. Notendur Rariks á þéttbýlisstöðum landsins, þar sem menn skyldu síst skattleggja menn til að borga fyrir óarðbært dreifikerfi sem verður þó að þjóna, borga um 400 millj. í brúsann, í hítina. Allir vita að rafmagnsverð á þessum þéttbýlisstöðum, sem standa í raun undir gjaldskrá Rariks, er gríðarlega hátt. Það skýrir svo vel að Orkubú Vestfjarða standi betur. Orkubú Vestfjarða á 40% af aflinu, fyrirtækið sjálft. Það þarf ekki að kaupa af stút frá Landsvirkjun fyrir 3,20 inn á kerfið nema 60%. Rafmagnsveitur ríkisins eiga ekki nema 7%, geta ekki framleitt nema 7% af aflinu og þurfa að kaupa hitt dýru verði frá Landsvirkjun. Það er fyrst og fremst þess vegna sem verðið er svo miklu hærra hjá Rarik úti um landið en hjá Orkubúi Vestfjarða.

Virðulegi forseti. Ég krefst þess að farið sé yfir þessi mál í samhengi. Það verður ekki liðið að menn flumbrist áfram á þennan hátt út og suður, selji hér og selji þar án þess að hafa nokkra heildarsýn á það sem þarf að gera. Hvað varðar Orkubú Vestfjarða þá vitum við, ef við höfum framtíðarsýn á fyrirtækið, að þar eru gríðarlegir möguleikar, jafnvel fyrir raforkubændur á að koma inn á netið og auka enn orkuframleiðslu á svæðinu. Það má raunar fara um allan fjórðunginn og finna víða góða möguleika, t.d. á Ströndum.

Virðulegi forseti. Þetta mál verður skoðað í iðnn. og við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði gerum kröfu um að þetta mál verði skoðað mjög náið í samhengi við ný orkulög og þá nýju sýn sem menn vilja hafa í þessum málum. Þetta verður ekki dansað svona út og suður í bútasaumi. Það verður að skoða þessi mál í nýju ljósi.

Við vitum vel að vegna stóriðjustefnunnar komumst við í vandræði með að laga ný orkulög að tilskipun ESB vegna þess að auðvitað áttum við okkur öll á því að Landsvirkjun er gríðarlega háð sölu á orku til stóriðju. Í efnahagsuppgjöri í fyrra var það um 60% af viðskiptum þeirra, 3 milljarðar af sölunni. En við Íslendingar sem notuðum 40% af orkunni og borguðum helmingi meira samkvæmt því uppgjöri, um 6 milljarða. Þetta eru hlutir sem verður að skoða og eru ekki sjálfgefnir. Það er ekkert vafamál í mínum huga að það að setja í púkk öll þau orkuframleiðslufyrirtæki sem til voru í landinu og mynda Landsvirkjun hefur gert það að verkum að hægt hefur verið að bjóða orku á tiltölulega lágu verði til stóriðju en ég er ansi hræddur um að það ball sé búið. Ný orkulög, sem byggja á því að hvaða hlutafélagi sem er verði frjálst að framleiða inn á kerfið samkvæmt Evróputilskipuninni, munu líklegast krefjast þess að við skoðum þetta fyrir landið allt í samhengi.

Að síðustu, virðulegi forseti, finnst mér að að svo mæltu þurfi hæstv. iðnrh. að svara, burt séð frá þessu frv., því hvernig hún sér fyrir sér jöfnunina í dreifbýlinu, hvort ráðherrann sjái fyrir sér framleiðslugjald eins og sumir nota, t.d. Skotar. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér jöfnun með skattaleið eða gæti hún hugsað sér að jafna með ríkisframlögum? Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, miðað stöðuna eins og hún er núna, höfum þráfaldlega lagt það til að framlög til Rafmagnsveitna ríkisins verði aukin. Samkvæmt því sem fyrirtækið sjálft gefur út er lágmark að árlegt framlag sé 400 millj. kr. en sum endurskoðunarfyrirtæki segja að það þyrfti að vera 700 millj. kr. Þá er talað um fjárfestingu á þeim línum sem bera sig ekki. Þetta eru tölur frá fyrirtækinu sjálfu.

Virðulegi forseti. Frv. til laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða er enn eitt frv. frá hæstv. ríkisstjórn þar sem byrjað er á vitlausum enda. Menn munu sjá afleiðingarnar af því að nokkrum missirum liðnum. Þannig er þetta með símann, póstinn, bankana o.s.frv. Það sem ég er að kalla eftir er að ekki verði gerð ein mistökin enn. Við viljum skoða þetta mál heildstætt og láta þetta frv. liggja, svona a.m.k. sem varatillögu. Ég geri mér grein fyrir því að hér er sterkur ríkisstjórnarmeirihluti og vildi að í öllu falli yrði samþykkt tillaga hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um að setja ákvæði inn í lögin um að salan megi ekki fara fram innan tiltekins tíma. Ég held að hann hafi nefnt 2--3 ár.