Aðgengi og verðlagning opinberra rannsóknargagna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:04:39 (5290)

2001-03-07 14:04:39# 126. lþ. 84.1 fundur 357. mál: #A aðgengi og verðlagning opinberra rannsóknargagna# fsp. (til munnl.) frá forsrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að gjaldtaka vegna upplýsinga sé samræmd og hallast að hinni amerísku leið með svipuðum hætti og forsrh. rakti hér áðan.

Ég vil vekja athygli á því í umræðunni að ef foreldrar vilja fá að sjá úrlausnir barna sinna úr samræmdum prófum þurfa þeir að borga Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, nú Námsmatsstofnun, 1.000 kr. fyrir. Þetta getur orðið ærinn kostnaður fyrir foreldra sem eru með fleiri en eitt og jafnvel fleiri en tvö börn í skóla.

Nú veit ég ekki hvort stofnunin hefur fengið til þess leyfi hjá hæstv. menntmrh. að verðleggja úrlausnirnar þegar þær eru sendar til baka til foreldra, ef eftir því er óskað með þessum hætti, en þetta liggur a.m.k. fyrir og færi betur að menn skoðuðu hvað er að gerast í hinum ýmsu stofnunum vegna þess að mér býður í grun að fyrst svo er hjá Námsmatsstofnun kunni víðar að vera um gjaldtöku að ræða sem enginn veit svo sem hvernig er fundin og hefur e.t.v. ekki fengið staðfestingu þeirra yfirvalda sem þyrftu að staðfesta slíkt.