Fjárstuðningur við fjölskyldur langveikra barna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:03:05 (5317)

2001-03-07 15:03:05# 126. lþ. 84.5 fundur 474. mál: #A fjárstuðningur við fjölskyldur langveikra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur spunnist út af þessari fyrirspurn og þakka svör ráðherrans. Það er vissulega rétt að það hefur ýmislegt verið gert í málefnum langveikra barna undanfarið og er það vel. Aftur á móti vantar þó nokkuð upp á. Við stöndum mun aftar en nágrannaþjóðir okkar í þeim efnum að foreldrar fá ekki greitt þegar þeir eru frá vinnu vegna veikinda barna sinna nema þessa 7--10 daga og ég fagna því ef farin verður sú leið að veita sambærilega greiðslu og í fæðingarorlofslögunum og vonast til þess að ráðherra verði við því.

Aftur á móti vil ég gera aftur að umtalsefni ferðareglurnar fyrir börnin sem þurfa að fara til útlanda í aðgerðir og var þar að ræða um hjartveiku börnin. Hæstv. ráðherra fór yfir reglurnar og sagði að yfirleitt væri borgað fyrir báða foreldra við slíka aðgerð, en það væri þó matsatriði. Það þyrfti að vera alveg skýlaus réttur beggja foreldra að fara út með barnið sitt í hjartaaðgerð. Þetta eru ekki nema kannski 10--15 börn á ári sem þurfa að fara í slíka aðgerð til útlanda. Það eru um 50 börn sem fæðast á ári hverju hjartveik og þar af eru 10--15 börn sem þurfa að fara í aðgerð. Þeir foreldrar sem ekki fá greiðslu fyrir báða foreldrana út lenda auðvitað í miklum aukalegum kostnaði sem leggst ofan á áhyggjur þeirra og annað sem íþyngir þeim vegna veikinda barna þeirra. Þess vegna vildi ég, herra forseti, óska eftir því við hæstv. ráðherra að hún skoðaði það að þessir foreldrar fengju greiðslur fyrir báða foreldra þegar farið er utan í slíkar aðgerðir.

En ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur vel í að auka réttinn til veikindaleyfis og greiðslna til foreldra vegna veikinda barna sinna, eins og hún hefur gefið hér í skyn, og væri gott að fá það í lokasvari hæstv. ráðherra hvenær hún hyggst koma því í framkvæmd að þessir foreldrar fái sambærilegar greiðslur og foreldrar í fæðingarorlofi og þann rétt sem er á Norðurlöndum.