Spilliefni

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:22:54 (5326)

2001-03-07 15:22:54# 126. lþ. 84.8 fundur 466. mál: #A spilliefni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:22]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Í ágúst 1989 var í fyrsta sinn sett í reglugerð skilgreining á umhverfislega óæskilegum efnum, eða svokölluðum spilliefnum. Á höfuðborgarsvæðinu hófst móttaka spilliefna í ársbyrjun 1990. Hér hefur verið stigið stórt og merkilegt spor á sviði umhverfismála sem hefur vakið athygli í nágrannaríkjum okkar og erlendir aðilar hafa komið til landsins til að kynna sér hvernig Íslendinga fara með spilliefnin. Íslendingar eru sér þess meðvitaðir í æ ríkari mæli hve mikil ógn getur stafað af ef ekki er rétt á haldið varðandi þau spilliefni sem til falla hér á landi.

Herra forseti. Vegna þessara hugrenninga hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. umhvrh. á þskj. 745:

1. Hvað hefur mikið fallið til af spilliefnum hér á landi sl. þrjú ár:

a. í föstu formi,

b. í fljótandi formi?

2. Hvernig er spilliefnum eytt? Hve mikið af þeim er flutt úr landi og hve miklu er eytt hérlendis og þá hvernig?

3. Hvað má ætla að verði mikil aukning spilliefna hér á landi á næstu árum?