Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 16:06:05 (5447)

2001-03-08 16:06:05# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[16:06]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við fjöllum um till. til þál. um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja. Þetta er angi af því velferðarkerfi sem við búum við og fjallar í raun um tekjuskiptingu milli þeirra sem eru vinnandi og hinna sem vinna ekki.

Í gær eða fyrradag hlustaði ég á fréttir og þar var verið að tala um samkomulag eða viðræður Samtaka aldraðra við ráðherra um nýtt lagafrv. Fréttamaðurinn sagði að hæstv. fjmrh. hefði orðið súr á svipinn sem hann var nú reyndar ekki. En það virðist vera afskaplega almenn skoðun að það sé fjmrh. sem borgi þetta allt saman, bara prívat og persónulega úr eigin kassa. Eigin vasa. Úr buddunni sinni. Það kemur hvergi fram í tillögunni sem við ræðum hver á að borga. Þess sakna ég.

Að sjálfsögðu er þetta allt borgað með sköttum. Að sjálfsögðu er þetta allt borgað af vinnandi mönnum. Þegar menn tala um að bæta hag einhvers hóps eins og hátekjulífeyrisþega eða hátekjuöryrkja er það að sjálfsögðu borgað af öllum Íslendingum, jafnt hátekju-Íslendingum sem lágtekju-Íslendingum. Öryrkjadómurinn er ekkert annað en skattlagning á lágtekjufólk til að borga hátekjufólki. Í tillögunni er heldur ekki komið inn á það hvað kerfið er orðið óskaplega flókið. Ég held að það sé nokkuð sem ég er búinn að segja mörgum sinnum.

Í þessari tillögu er gert ráð fyrir því að miða eigi við lægstu laun. Gott og vel. Þetta var gert í áratugi sem varð til þess að ekki var hægt að hækka lægstu laun í landinu og þau urðu skammarlega lág. Þegar ég hóf störf á Alþingi fyrir einum sex árum voru lægstu laun 42.000 kr., herra forseti. Það var skammarlegt. Og það var fólk sem vann raunverulega á þessum töxtum, aðallega konur, og það var skömm að því. Nú hefur með sameiginlegu átaki verkalýðshreyfingarinnar og aðila vinnumarkaðarins, atvinnurekenda, tekist að hækka þessi laun með það að markmiði að hækkunin hefði ekki áhrif út um allt. Það tókst. Menn leyfa sér aftur og aftur að vitna í það að eitthvað hafi ekki hækkað eins og lægstu laun, sem stóð til að hækka umfram allt annað, bætur, laun, laun forstjóra, laun iðnaðarmanna o.s.frv.

Sú tillaga sem við ræðum er um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja. Hún er til staðar í dag, herra forseti. Við erum með tekjutryggingu í almannatryggingakerfinu sem er afkomutrygging. Við erum með tekjutryggingu og Alþýðuflokkurinn sálugi stóð aldeilis fyrir því að tekjutengja þá tryggingu enn meira en nokkuð og tekjutengja allar bætur út og suður. Svo erum við með lög um sveitarfélög sem tryggja þeim sem geta ekki sjálfir séð sér farborða aðstoð sveitarfélagsins. Við erum því með afkomutryggingu aldraðra og öryrkja í dag. Spurningin er hvort hún sé nægilega mikil.

Kjör aldraðra eru afskaplega mismunandi. Margir aldraðir eru mjög vel settir, með mjög háan lífeyri, 100.000, 200.000 kr. í lífeyri úr lífeyrissjóði eða einhverju sérkerfi sem menn hafa hannað. Svo eiga menn sem betur fer eignir eftir langa starfsævi. Sumir eiga góðan sparnað. Kjör aldraðra eru því mjög mismunandi. Ég hygg að kjör öryrkja séu ekki alveg eins mismunandi, þau séu almennt jafnari og verri. En þó eru margir öryrkjar, sérstaklega þeir sem hafa sinnt þeirri skyldu að borga í lífeyrissjóð, tiltölulega vel settir með kannski 70--80% af launum áfram. (Gripið fram í.) Sumir aldraðir, sérstaklega þeir elstu og nægtasömustu, það er ekki kröfuharður hópur, eru með mjög lítinn rétt í lífeyrissjóði. Þeir gátu aldrei öðlast þann rétt, þeir eru það gamlir, en þeim var aftur á móti tryggður ákveðinn lágmarksréttur með lögum um umsjónarnefnd eftirlauna en ég ætla ekki að fara út í það.

Vandamálið í þessu öllu er það að við þurfum að bera saman það fólk sem hefur borgað í lífeyrissjóð og það fólk sem gerði það ekki, sem kom sér hjá því þó það ætti að gera það. Menn sem eru búnir að borga í 40 ár í lífeyrissjóð vilja ekki sitja eins og hinir þegar kemur að töku lífeyris. Þá er kannski ráðið að hækka við alla, eitthvert lágmark og hafa ekki skerðingar, þá lendum við í samanburði við vinnandi manninn. Það er fjöldi fólks hér á landi sem er með 110.000 kr. í laun, fullt af konum sem ég þekki sem eru með 110.000 kr. og ekki neina yfirvinnu og enga bílastyrki og engar sporslur. Það fólk er að borga bæturnar. Ef öryrkjar og ellilífeyrisþegar eiga að vera með meiri laun en sá sem borgar launin er ég hræddur um að einhvers staðar heyrist hljóð í horni. Þetta eru vandamálin.

Á undanförnum árum hafa komið til nýjar bætur sem hefur ekki verið minnst á. Það hefur ekki verið minnst á þær í umræðunni. Lengi vel var talað um það fólk sem þyrfti að leigja og væri illa sett, öryrkja og ellilífeyrisþega. Svo komu húsaleigubætur, bara allt í einu eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ekki er minnst á að það hafi bætt kjör þessa fólks á síðustu fimm eða tíu árum. Svo hefur verið gert mikið átak fyrir helming þeirra sem fá örorkulífeyrisbætur, þ.e. fatlaða. Ég kalla þá fatlaða sem eru öryrkjar frá fæðingu. Það er sennilega svona þriðjungur eða helmingur af öllum öryrkjum. Heilmikið átak hefur verið gert í sambýlum og alls konar slíkt fyrir fatlaða þó að kannski hafi ekki nógu mikið áunnist í þeim efnum.

Það gleymist líka í umræðunni, herra forseti, að bætur frá lífeyrissjóðunum eru verðtryggðar miðað við neysluverð, þær hækka ekki eins og laun, langt í frá, það er ekki hægt vegna þess að eignir lífeyrissjóðanna eru verðtryggðar miðað við neysluvísitölu og þeir borga helminginn af öllum lífeyri í landinu. Það hangir m.a. saman við verðtryggingu á húsbréfum og vilji menn fara að verðtryggja það miðað við laun, þá yrði aldeilis að hækka verðtrygginguna á húsbréfunum. Allt er þetta mjög flókið samspil sem erfitt er að taka á.

Það sem vantar, herra forseti, í dag er að gera mun á manni sem er 70% öryrki og öðrum sem er 100% öryrki. Þá á ég við mann sem getur ekki unnið neitt og annan sem getur unnið 30%. Enginn munur er gerður á þessum einstaklingum í dag. Þeir fá báðir 100% lífeyri. Hægt væri að hækka lífeyrinn til þess sem er 100% öryrki ef hinn fengi 70%. Ef við leyfðum þeim sem er 70% öryrki að vinna 30% starfshlutfall þá er hann miklu betur settur. Það vantar líka að taka inn þá sem eru tekjulausir, t.d. uppalendur og þá sem sinna umönnunarstörfum og öðru slíku. Það þarf að taka meira tillit til þeirra sem þurfa á hjálpartækjum að halda. En ég vil benda á að allt er þetta greitt af einhverjum og menn þurfa að gæta sín á því að næst þegar kemur dýfa í efnahagslífið séum við ekki búin að binda okkur óleysanlegan kross.